Gríska þingið hefur samþykkt nýtt samkomulag við evruríkin, en frumvörp sem eru forsenda þess að samkomulagið taki gildi voru samþykkt eftir miklar og harðar umræður í allt kvöld. Á meðan eru óeirðir í Aþenu.
Þingið samþykkti með 229 atkvæðum. 64 sögðu nei og 6 sátu hjá. 38 þingmenn stjórnarflokksins Syriza voru meðal þeirra sem höfnuðu samkomulaginu en 124 studdu Alexis Tsipras forsætisráðherra og formann flokksins.
Meðal þeirra sem höfnuðu samkomulaginu var Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra, sem hætti störfum í síðustu viku og hefur síðan verið mjög gagnrýninn á lánardrottna landsins. Forseti þingsins, Zoe Konstantopoulou, sagði líka nei.
Mótmæli fyrir utan þinghúsið í Aþenu og víðar breyttust í óeirðir og bensínsprengjum var kastað að lögreglumönnum, sem svöruðu með táragasi.