Tuttugasti og sjöundi aðildarríkjafundur Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP27, hefst í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi á sunnudag. Sama dag fer fram formannskjör á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, býður sig fram gegn Bjarna Benediktssyni, sitjandi formanni.
Guðlaugur Þór mun ekki sækja ráðstefnuna en Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, fer fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Svandís mun ávarpa ráðherrafund og taka þátt í hliðarviðburðum á ráðstefnunni.
Samkvæmt upplýsingum frá matvælaráðuneytinu stóð til að Guðlaugur Þór yrði viðstaddur seinni viku loftslagsráðstefnunnar og tæki þátt í viðburðum henni tengdri. „Ráðherra fótbrotnaði fyrir nokkru og fær ekki leyfi læknis til að takast á hendur það ferðalag sem ráðstefnan krefst,“ segir í svari ráðuneytisins til Kjarnans. Guðlaugur Þór mun þó ávarpa viðburð á vegum Hringborðs Norðurslóða í gegnum streymi.
Vikan undirlögð fyrir undirbúning landsfundar
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst í dag. Guðlaugur Þór tilkynnti á sunnudag að hann myndi bjóða sig fram gegn Bjarna á landsfundinum.
Framboðið hafði legið í loftinu í nokkra daga og spurst hafði út að mennirnir tveir hefðu fundað undir lok síðustu viku til að kanna hvort önnur lausn væri á stöðunni en formannsslagur.
Niðurstaðan var framboð og hefur vikan verið undirlögð undirbúningi þess hjá flokksmönnum, sama hvorn þeir styðja. Þannig sótti Birgir Ármannsson, forseti þingsins, til að mynda ekki þing Norðurlandaráðs sem fram fór í Helsinki í vikunni og Bryndís Haraldsdóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, fór snemma heim af þinginu.
50 þátttakendur frá Íslandi skráðir á COP27
Ísland sendir 17 fulltrúa á loftslagsráðstefnuna. Sendinefndina skipa fulltrúar frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, matvælaráðuneytinu, Umhverfisstofnun og Orkustofnun. Þá styrkir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fulltrúa ungmenna til þátttöku á fundinum og er þetta í annað sinn sem fulltrúi ungmenna er í opinberu sendinefndinni.
Auk hinnar formlegu sendinefndar sækja þingmenn og fulltrúar frá félagasamtökum og fyrirtækjum viðburði sem tengjast loftslagsráðstefnunni beint eða óbeint, en um 50 þátttakendur frá Íslandi eru skráð á COP27 og tengda viðburði. Áætlað er að í kringum 20 þúsund manns taki þátt í loftslagsráðstefnunni og tengdum viðburðum í Sharm El Sheikh.
COP er stytting á enska heitinu „Conference of the Parties“ eða ráðstefna aðildarríkja og er þar vísað til alþjóðlegra samninga, annars vegar um loftslagsmál og hins vegar fjölbreytni lífríkisins. Sameinuðu þjóðirnar skipuleggja ráðstefnurnar en þátttakendur eru háttsettir fulltrúar ríkja, staðbundinna samtaka og frjálsra félagasamtaka. Loftslagsráðstefnan í Egyptalandi verður sú 27. í röðinni og kallast því styttingar og einföldunar COP27.
Á ráðstefnunni í ár mun Ísland leggja áherslu á að ekki verði vikið frá markmiði Parísarsamningsins um að halda hlýnun jarðar frá iðnbyltingu innan við 1,5 °C, en samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna munu núverandi loforð ríkja um samdrátt í losun ekki duga til að markmiðið náist.