Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur lagt fram kæru á hendur Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, fyrir að brjóta reglur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en prófkjörið hefst á morgun og lýkur á laugardag. Frá þessu greinir Fréttablaðið.
Í frétt á vef blaðsins kemur fram að í sameiginlegri kæru Guðlaugs Þórs og Diljár Mistar Einarsdóttir sem sækist eftir þriðja sæti í prófkjörinu segir að Magnús Sigurbjörnsson, bróðir Áslaugar Örnu og kosningastjóri hennar, hafi í aðdraganda prófkjörsins og eftir að framboðsfrestur rann út haft aðgang að flokksskrá Sjálfstæðisflokksins þar sem finna má „nákvæmar og stöðugt uppfærðar upplýsingar um flokksmenn.“
Í kærunni kemur fram að ábendingar höfðu borist kærendum um að nýskráðir Sjálfstæðismenn hefðu fengið símtal frá framboði Áslaugar Örnu þar sem þeir eru boðnir velkomnir í flokkinn. „Rennir það stoðum undir þá ályktun að framboð Áslaugar Örnu hafi haft aðgang að þessum nákvæmu persónuupplýsingum og nýtt þær í þágu framboðsins,“ segir í kærunni.
Óska eftir því að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir
Samkvæmt frétt Fréttablaðsins var kæran send stjórn Varðar, fulltrúaráðs flokksins í Reykjavík, og óskað var eftir því að hún bærist yfirkjörstjórn.
Óskað er eftir því í kærunni að yfirkjörstjórn sem og aðrir frambjóðendur verði upplýstir um aðstöðumun frambjóðenda. Þá er það sagt nauðsynlegt að yfirkjörstjórn og framkvæmdastjórn flokksins „kanni nánar hugsanlegar afleiðingar meintra brota og geri viðeigandi ráðstafanir lögum samkvæmt.“
Líkt og áður segir hefst prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík á morgun og lýkur á laugardaginn. Áslaug og Guðlaugur hafa bæði sóst eftir fyrsta sætinu í prófkjörinu. Diljá Mist hefur sóst eftir þriðja sæti í prófkjörinu en hún er aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs.