Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík samkvæmt tölum þegar búið er að telja rúmlega þrjú þúsund atkvæði. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra er í öðru sæti og Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs, er í þriðja sæti. Alls munar 101 atkvæðum á Guðlaugi Þór og Áslaugu Örnu í fyrsta sætið sem stendur.
Þingmaðurinn Brynjar Níelsson er í fjórða sæti og Hildur Sverrisdóttir, aðstoðarmaður ráðherra og varaþingmaður, er í fimmta sæti. Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, er í sjötta sæti samkvæmt fyrstu tölum.
Sjálfstæðisflokkurinn er sem stendur með fimm þingmenn samanlagt í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Samkvæmt nýjustu könnunum getur flokkurinn vænst þess að ná fjórum til fimm þingmönnum inn í kjördæmum höfuðborgarinnar.
Alls er búið að telja um 3.013 atkvæði af um 7.500 en búist er við að lokatölur liggi fyrir í nótt.
Fréttin var uppfærð kl. 21:12 eftir að aðrar tölur voru birtar.