Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er efstur eftir í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í þriðju tölum úr prófkjörinu. Búið er að telja 5.973 atkvæði af um 7.500. Næstu tölur verða lokatölur. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra er í öðru sæti. Alls munar 168 atkvæðum á ráðherrunum tveimur sem sækjast eftir efsta sætinu á lista flokksins.
Í þriðja sæti er Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs, og sú vending hefur orðið að Hildur Sverrisdóttir, sem er aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur og varaþingmaður, er nú í fjórða sæti. Í fimmta sæti er Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn er sem stendur með fimm þingmenn samanlagt í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Samkvæmt nýjustu könnunum getur flokkurinn vænst þess að ná fjórum til fimm þingmönnum inn í kjördæmum höfuðborgarinnar.