Útgjöld vegna framboðs Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíku námu alls 11,1 milljón króna, en þetta kemur fram í uppgjöri frá honum sem birtist á vef Ríkisendurskoðunar í dag.
Guðlaugur Þór fékk alls tæpar 7 milljónir króna í styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum, en að auki lagði hann sjálfur persónulega 4,4 milljónir króna í prófkjörsbaráttuna gegn Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Hvort eigin framlög ráðherrans til baráttunnar hafi verið það sem reið baggamuninn er alls óvíst, en raunin varð þó sú að Guðlaugur Þór varð hlutskarpastur í prófkjöri flokksins í Reykjavík.
Áslaug Arna fékk 8,7 milljónir í styrki í sinni framboðsbaráttu. Styrkir til Guðlaugs Þórs frá fyrirtækjum námu alls rúmum 2,8 milljónum króna, en styrkir frá 24 einstaklingum námu 4,1 milljón.
Tvö fyrirtæki, T22 ehf. og Bílar og fólk ehf., styrktu Guðlaug Þór um hámarksupphæð, sem er 400 þúsund krónur.
Alls varði Guðlaugur Þór tæpum 4,7 milljónum króna í auglýsingar og 6,4 milljónum króna í rekstur kosningaskrifstofu, samkvæmt uppgjörinu.
Guðrún Hafsteinsdóttir setti tvær milljónir í slaginn
Guðrún Hafsteinsdóttir, sem sigraði prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi varði tveimur milljónum króna í prófkjörsslag sinn gegn Vilhjálmi Árnasyni þingmanni, sem einnig sóttist eftir efsta sætinu.
Guðrún fékk styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum að andvirði tæplega 1,9 milljóna króna. Framboð Guðrúnar fékk 400 þúsund króna hámarksstyrk frá einu félagi, V.S. investment ehf.
Ásmundur Friðriksson, sem bauð einnig fram í Suðurkjördæmi og náði þriðja sæti, varði rúmum 3,2 milljónum króna til sinnar baráttu, eins og Kjarninn sagði frá í gær.