Þórunn Sveinbjarnardóttir mun leiða lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, fjölmennasta kjördæmi landsins, í næstu þingkosningum. Frá þessu greinir núverandi oddviti flokksins í kjördæminu, Guðmundur Andri Thorsson, í stöðuuppfærslu á Facebook. Guðmundur Andri ætlar að taka annað sætið á listanum.
Þórunn hefur verið formaður Bandalags háskólamanna (BHM) frá árinu 2015. Þar áður var hún framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Hún sat á þingi fyrir flokkinn frá árinu 1999 til 2011 og var umhverfisráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde, sem sat við völd frá 2007-2009. Eftir að hún lét af þingmennsku var hún um skeið aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar, þáverandi formanns flokksins og gerðist síðar, líkt og áður sagði, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar.
Þórunn Sveinbjarnardóttir mun sem sagt leiða listann og það styð ég. Hún hefur verið öflugur málsvari launafólks undanfarin ár en var áður þingmaður kjördæmisins og ráðherra. Hún verður öflug í fyrsta sæti. Og ég verð öflugur í öðru sæti. Að ekki sé nú talað um unga fólkið sem kemur svo í næstu sætum á eftir.“
Þegar liggur fyrir hvernig listi Samfylkingarinnar verður í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Þær Helga Vala Helgadóttir og Kristrún Frostadóttir munu sitja í oddvitasætum. Helga Vala hefur verið þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður síðan árið 2017. Hún er auk þess formaður velferðarnefndar. Kristrún er á ný á lista hjá flokknum en hún starfaði áður sem aðalhagfræðingur Kviku banka.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir gekk í raðir Samfylkingarinnar fyrr á þessum þingvetri eftir að hafa setið á þingi um nokkurt skeið sem óháður þingmaður. Hún var kjörin á þing fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð árið 2016 og hefur setið sem þingmaður Suðvesturkjördæmis allt frá því hún var kjörin á þing og í tilkynningu sem hún sendi frá sér í síðari hluta janúar á þessu ári sagðist hún vilja leiða flokkinn í því kjördæmi. Í komandi kosningum verður hún hins vegar önnur á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Nýr á lista Samfylkingarinnar verður Jóhann Páll Jóhannsson sem starfað hefur sem blaðamaður um árabil. Hann tekur annað sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Á eftir þeim Rósu Björk og Jóhanni Páli koma þau Viðar Eggertsson, leikstjóri, í þriðja sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður og Dagbjört Hákonardóttir, lögfræðingur, í þriðja sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður.