Guðmundur Árni Stefánsson, fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar, mun leiða lista Samfylkingarinnar í sveitarfélaginu í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hann sigraði í flokksvali flokksins í dag með yfirburðum. Alls fékk Guðmundur Árni 537 atkvæði í fyrsta sæti listans, en alls greiddu 962 atkvæði. Í öðru sæti var Sigrún Sverrisdóttir með 290 atkvæði í fyrsta til annað sætið og Árni Rúnar Þorvaldsson, sem sóttist einnig eftir oddvitasætinu, varð í þriðja sti með 485 atkvæði í fyrsta til þriðja sætið.
Hildur Rós Guðbjargsdóttir varð í fjórða sæti, Stefán Már Gunnlaugsson í þvi fimmta og Kolbrún Magnúsdóttir í sjötta. Kosningar í sex efstu sætin eru bindandi. Samfylkingin er sem stendur í minnihluta í Hafnarfirði þar sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ræður ríkjum.
Guðmundur Árni, sem verður 67 ára í haust, hefur áður verið leiðandi afl í bæjarstjórnarpólitík í Hafnarfirði. Hann sat í bæjarstjórn í tólf ár á síðustu öld, þar af sem bæjarstjóri í sjö. Guðmundur Árni steig upp úr þeim stóli 1993, fyrir 29 árum síðan, og settist á þing í kjölfarið fyrir Alþýðuflokkinn.