Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, hefur tilkynnt flokksmönnum að hann sé hættur við að leggja fram tillögu um róteringu á æðstu embættum flokksins á ársfundi hans sem fram fer 5. september næstkomandi. Það gerði hann með stöðuuppfærslu á lokuðu Facebook-svæði Bjartrar framtíðar fyrr í dag.
Guðmundur segir þar að rótering muni hvort eð er eiga sér stað í ljósi þess að hann muni hætta sem formaður, Róbert Marshall sem þingflokksformaður og Margrét Marteinsdóttir sem stjórnarformaður. Í stað tillögu um róteringu æðstu embætta ætlar Guðmundur að leggja til að stofnuð verði lagabreytingarnefnd og að tillaga hans um róteringu embætta verði sett inn í hana til umfjöllunar. Því bíði ákvörðun um að setja róteringu í lög flokksins þarnæsta ársfundar.
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður bæjarstjórnar í Hafnarfirði og bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar, er enn sem komið er sú eina sem hefur tilkynnt að hún sækist eftir embætti formanns Bjartrar framtíðar á ársfundi sem haldinn verður 5. september næstkomandi. Fjögur framboð hafa hins vegar borist til embættis stjórnarformanns Bjartrar framtíðar. Þau eru frá Guðlaugu, sem sækist þá eftir öðru hvoru embættinu í forystusveit flokksins, Karólínu Helgu Símonardóttur, Matthíasi Frey Matthíassyni og Preben Péturssyni. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Bjartrar framtíðar sem birt var í gær.
Enn er nægur tími fyrir fleiri að bjóða sig fram þar sem framboð þurfa að berast fyrir upphaf ársfundarins. Allir skráðir félagar í Bjartri framtíð geta boðið sig fram í embættin.
Fjölmargir hafa verið orðaðir við formannsframboð. Einn þeirra er Heiða Kristín, en hún tilkynnti í gær að hún myndi ekki bjóða sig fram. Þess í stað hvatti hún Brynhildi Pétursdóttur, þingmann flokksins, til framboðs. Brynhildur hefur ekki sagt af eða á um hvort hún muni láta slag standa. Sömu sögu er að segja af Óttarri Proppé, þingmanni Bjartrar framtíðar, en í viðtali við Fréttablaðið í dag segist hann treysta sér til forystustarfa.