Guðmundur Kristjánsson, stærsti eigandi Brim og forstjóri félagsins, keypti nýverið þrjú þúsund eintök af barnabókum í flokknum Litla fólkið og stóru draumarnir og ætlar að gefa í alla grunn- og leikskóla landsins. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi og í Morgunblaðinu í dag.
Útgefandi bókanna er bókaútgáfufélagið Stórir draumar ehf. Það er í eigu tveggja hjóna, þeirra Stefáns Einars Stefánssonar, viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins, og Söru Lind Guðbergsdóttir, lögfræðings í fjármálaráðuneytinu, og þeirra Gísla Freys Valdórssonar, ritstjóra Þjóðmála og rágjafa hjá almannatenglafyrirtækinu KOM, og Rakelar Lúðvíksdóttur, kennara. Útgáfan var stofnuð fyrr á þessu ári.
Í viðtali við Stöð 2 sagði Guðmundur að hann teldi ekki óæskilegt að skilja meiri peninga eftir inni í fyrirtækjum landsins svo að þau svo verji þeim í samfélagsleg verkefni, í stað þess að fela það einvörðungu ríkisvaldinu. Þar segist hann ekki vera að kaupa sér vini. „Ég held að við útgerðarkarlarnir, það er seint að við verðum vinsælir hér á Íslandi.“
Mannréttindafrömuðir og báráttufólk gegn loftslagsbreytingum
Bækurnar sem um ræðir eru þýddar barnabækur úr bókaflokki eftir spænska rithöfundin Maria Isabel Sánchez Vegara. Þær fjalla um vísindamenn, baráttufólk fyrir mannréttindum, íþróttafólk, listafólk eða annað fólk sem hefur afrekað merkilega hluti. Þegar eru komnar út sex bækur á íslensku og í viðtali við útgefendur í Morgunblaðinu í nóvember kom fram að sex titlar til viðbótar myndu koma út í febrúar. Á meðal viðfangsefna í þeim bókum sem komnar eru út eru mannréttindafrömuðir á borð við Malala Yousafzai og Rosu Parks og dýraverndunar- og loftslagsbaráttugoðsögnin David Attenborough. Á meðal þeirra sem fjallað verður um í bókunum sem eru væntanlegar er Greta Thunberg, Michele Obama og Michael Jordan.
Íslandsbanki gefur líka öllum börnum sem leggja fjármuni inn á Framtíðarreikning bankans eintak af bókunum úr bókaflokknum. Á heimasíðu bankans segir að með bókagjöfinni vilji hann „hvetja unga krakka til að æfa sig í lestri en bækurnar eru sniðnar að þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í lestrarnámi.“
Frábært að falla ekki í rétttrúnaðargildruna
Guðmundur segir í viðtalinu við Stöð 2 að fyrirtæki landsins séu ekki að gera nóg til að efla íslenskukunnáttu starfsfólks síns sem sé af erlendu bergi brotið. Fyrir vikið fari læsi hrakandi og aðflutt fólk sjái smut ekki ástæðu til að reyna að læra tungumálið. Þess vegna setji hann tugi milljóna króna í verkefni tengd íslenskri tungu á hverju ári.
Stefán Einar, einn eigenda útgáfunnar Stórir draumar, tjáir sig um máli í Facebook-færslu sem hann birti í gær. Þar segir hann það vera frábært að menn skuli ekki falla í rétttrúnaðargildruna. „Auðvitað er það eftirsóknarvert fyrir fólk sem hingað flyst að læra íslensku. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hefur haft forgöngu um að fyrirtækið stendur nú fyrir einni stærstu bókagjöf í sögu landsins. Allir leik- og grunnskólar landsins munu fá sent eintak af fyrstu sex titlunum í bókaflokknum, Litla fólkið og stóru draumarnir. Þar er sögð saga ekki ómerkari einstaklinga en Malölu Yousafzai, David Attenbourough, Rosu Parks, Martin Luther King jr., Steve Jobs og Marie Curie.“
Markaðsvirðið 149 milljarðar króna
Brim hefur verið skráð í Kauphöll Íslands frá árinu 2014. Það er stærsta einstaka útgerðarfyrirtæki landsins og markaðsvirði þess er sem stendur 149 milljarðar króna. Langstærsti eigandi þess er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 43,97 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf. Það félag er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar.
Samkvæmt nýlegum útreikningum Fiskistofu hélt Brim á 13,2 prósent af heildarverðmæti úthlutaðra aflaheimilda hérlendis í byrjun nóvember. Það var yfir lögbundnu hámarki á fiskveiðikvóta sem einn útgerð má halda á samkvæmt lögum, en það er tólf prósent. Þar munaði mestu um að Brim er fékk 18 prósent af nýlega úthlutuðum loðnukvóta, sem var stóraukinn milli ára. Brim hafði sex mánuði frá byrjun nóvember til að koma sér undir kvótaþakið. Það gerði félagið 18. nóvember síðastliðinn þegar Brim seldi aflalhlutdeild fyrir 3,4 milljarða króna til Útgerðarfélags Reykjavíkur.
Útgerðarfélag Reykjavíkur hafði fyrir þann tíma fengið úthlutað eða keypt 2,23 prósent af öllum aflaheimildum. Til viðbótar heldur útgerðarfélagið Ögurvík, að fullu í eigu Brims, á 0,76 prósent af úthlutuðum kvóta. Þessi þrjú félög halda því á 16,19 prósent af úthlutuðum kvóta.