Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra mun leiða lista Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi, en hann varð hlutskarpastur í forvali flokksins sem lauk kl. 17:10 í dag. Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður sem einnig sóttist eftir oddvitasæti varð í öðru sæti í forvalinu og Una Hildardóttir í þriðja sæti.
Í fjórða sæti varð Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sem sneri aftur í stjórnmálin og sóttist eftir öðru sæti í forvalinu. Þóra Elfa Björnsson varð fimmta, en í forvalinu, sem hófst á fimmtudag, var valið í fimm efstu sæti á framboðslista hreyfingarinnar fyrir kosningarnar sem fram fara í haust.
Alls voru níu manns í framboði. 1.699 manns voru á kjörskrá og 844 greiddu atkvæði, sem samsvarar 50 prósent þátttöku. Kjörstjórn mun í framhaldinu leggja fram lista með 22 frambjóðendum fyrir kjördæmisþing til samþykktar í samræmi við lög og stefnu hreyfingarinnar, samkvæmt tilkynningu frá VG.
Niðurstaða forvalsins:
- Guðmundur Ingi Guðbrandsson með 483 atkvæði í 1. sæti
- Ólafur Þór Gunnarsson með 361 atkvæði í 1.-2. sætið
- Una Hildardóttir með 482 atkvæði í 1.-3. sæti
- Kolbrún Halldórsdóttir með 435 atkvæði í 1.-4. sæti
- Þóra Elfa Björnsson með 421 atkvæði í 1.-5. sæti
Vinstri græn náðu þeim árangri 2017 að verða næst stærsti flokkurinn í Kraganum og fá tvo kjördæmakjörna þingmenn. Þá leiddi Rósa Björk Brynjólfsdóttir lista flokksins og Ólafur Þór Gunnarsson sat í öðru sæti.
Rósa Björk ákvað hins vegar að styðja ekki myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokki og varð því strax að nokkurskonar olnbogabarni innan þingflokks Vinstri grænna eftir síðustu kosningar. Það leiddi á endanum til þess að hún yfirgaf flokkinn og hefur nú gengið til liðs við Samfylkinguna, þar sem hún verður í framboði í Reykjavík.
Guðmundur Ingi er ekki þingmaður í dag, en hann var fenginn sem utanþingsráðherra Vinstri grænna inn í umhverfis- og auðlindaráðuneytið þegar ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar var mynduð í upphafi kjörtímabilsins.