Guðmundur Gunnarsson, fyrrum bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar mun leiða lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Þetta var tilkynnt í myndbandi sem flokkurinn birti á samfélagsmiðlum í dag. Heildarlisti flokksins í kjördæminu liggur ekki fyrir og er uppstillingarnefnd hans enn að störfum.
Kjarninn greindi frá því 14. desember síðastliðinn að Guðmundur væri genginn í Viðreisn og stefndi að því að leiða lista flokksins í kjördæminu. Hann hefur ekki áður verið hluti af stjórnmálaafli.
Staðfest! Landsbyggðarlúði fer í framboð. Ég ætla að reyna að nota orðin „vegferð“ og „innviðir“ sem minnst. https://t.co/ZvuSGMuig4
— Guðmundur Gunnarsson (@gummigunnars) March 23, 2021
Í tilkynningu segir Guðmundur að hann hafi ákveðið að bjóða sig fram í Norðvesturkjördæmi vegna þess að hann beri sterkar taugar til heimahaga sinna og vilji vinna að því að rétta hlut svæðisins. „Það býr kraftur í Norðvesturkjördæmi og þann kraft þarf að leysa úr læðingi með breyttum áherslum og ferskum vindum. Þar sem leiðarstefið er að almannahagsmunir trompi sérhagsmuni.“
Í viðtali við Mannlíf í febrúar í fyrra sagðist hann hafa orðið þess mjög fljótt áskynja eftir að hafa verið ráðinn í starfið að hann nyti ekki stuðnings Sjálfstæðisflokksins, sem var stærri flokkurinn í meirihlutanum í sveitarfélaginu.
Viðreisn er ekki með þingmann í Norðvesturkjördæmi sem stendur.