Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins landbúnaðarráðherra til margra ára, gagnrýnir flokksbróður sinn Sigurð Inga Jóhannsson, núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Ástæðan er nýr samningur milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.
Samningarnir við ESB fela í sér að Ísland fellir niður tolla á yfir 340 nýjum tollskrárnúmerum og lækkar tolla á yfir 20 öðrum. Auk þess er samið um að báðir aðilar auki verulega tollfrjálsa innflutningskvóta m.a. fyrir ýmsar kjöttegundir og osta, sem munu koma til framkvæmda á tilteknum aðlögunartíma. Lækkun vöruverðs vegna samninganna getur numið tugum prósenta.
Guðni segir í grein sinni að stjórnmálamenn séu "bláeygir og hræddir að ganga gegn síbyljunni í fjölmiðlum og takast ekki á við áróðursöfl sem sjá innflutning alltaf í hillingum og gera grín að allri umræðu um að sjúkdómar geti borist með innfluttu kjöti, hvað þá lifandi dýrum".
Hann segir það síðan hafa komið sem þrumu úr heiðskýru lofti þegar Sigurður Ingi gerði nýja tollasamninginn við Evrópusambandið og að viðbrögð við gerð hans hafi bæði verið fálmkennd og metnaðarlaus. Vísar hann máli sínu til stuðnings í að varnarorð Margrétar Guðnadóttur prófessors um áhættuna af innflutningi frá sambandinu vegna flóru sjúkdóma sem glímt er við innan þess.
Hver læddi þessari flugu í munn ráðherrans?
Í millifyrirsögn segir Guðni að ráðherrann (Sigurður Ingi) hafi brugðist sjálfum sér. Guðni vitnar síðan í viðtal við Sigurð Inga frá því í sumar þar sem hann sagði að væntanlega myndi samningurinn þýða aukningu á útflutningi og innflutningi á lambakjöti.
Að mati Guðna er með þessu verið að "offra" lambakjötsmarkaðnum og auka áhættuna hvað sauðféð varðar. "Nóg hefur nú sauðkindin mátt þola vegna sjúkdóma sem komu með lifandi og dauðum sauðkindum til landsins. Ekki hvarflar að mér að Sigurði Inga Jóhannssyni hafi dottið þetta í hug sjálfum og tæplega forystumönnum bænda, en hver læddi þessari flugu í munn ráðherrans, var það bara vindurinn eða "kerling" kæruleysisins? Sigurður Ingi er nefnilega best menntaði landbúnaðarráðherra fyrr og síðar til að takast á við þessa umræðu heima og erlendis. Hann er dýralæknir, þekkir sjúkdómasöguna, veit og þekkir afrek háskólans á Rannsóknarstöðinni á Keldum. Hann er sá sem hefur nægja þekkingu til að segja "nei," við ríkisstjórnarborðið við samningamennina í ESB og getur sagt frá sérstöðu Íslands, hreinleika jarðarinnar og að búfjársjúkdómar séu varla til á Íslandi. Að vegna einangrunar landsins og búpeningsins geti sýkingar farið eins og sinueldur um og strádrepið eða sýkt blessuð dýrin. Hvar voru bændurnir, þeir þögðu þunnu hljóði, eða stöðvuðu þeir ráðherrann og embættismennina?"