Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss og fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins, verður næsti oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hún hafði betur gegn Vilhjálmi Árnasyni þingmanni flokksins í slagnum um oddvitasætið í kjördæminu, en prófkjör flokksins fór fram á laugardag og lágu lokatölur ekki fyrir fyrr en um kl. 3 aðfaranótt sunnudags.
Vilhjálmur hlaut annað sætið í prófkjörinu og í því þriðja varð þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson. Sjálfstæðisflokkurinn á í dag þrjá þingmenn í kjördæminu, en Páll Magnússon, sem leiddi flokkinn til kosninga árið 2016 og 2017, ákvað að gefa ekki kost á sér til endurkjörs.
Suðurkjördæmi, sem hefur stundum verið kallað „biblíubeltið“ vegna þess fjölda karla sem raðast hafa í efstu sætin á listum flokkanna í kjördæminu í undanförnum kosningum, mun nú að líkindum eiga fyrsta þingmann sem er kona, en Sjálfstæðisflokkurinn fékk rúman fjórðung atkvæða í kjördæminu í kosningunum árið 2017.
Skilur Ásmund
Suðurkjördæmi er stórt. Nýi oddvitinn Guðrún sagði við fylgjendur sína á Facebook á laugardag að hún væri búin að öðlast „djúpan skilning“ á því af hverju Ásmundur Friðriksson keyrði mikið og sagðist sjálf hafa keyrt yfir 5.500 kílómetra í prófkjörsbaráttunni, þegar allt væri saman tekið.
Alls tóku 4.647 manns þátt í því að velja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Auðir og ógildir seðlar voru 114 talsins og gild atkvæði því 4.533.
Úrslit prófkjörsins voru svona:
- Guðrún Hafsteinsdóttir hlaut 2.183 atkvæði í 1. sæti.
- Vilhjálmur Árnason hlaut 2.651 atkvæði í 1.-2. sæti.
- Ásmundur Friðriksson hlaut 2.278 atkvæði í 1.-3. sæti.
- Björgvin Jóhannesson hlaut 1.895 atkvæði í 1.-4. sæti.
- Ingveldur Anna Sigurðardóttir hlaut 2.843 atkvæði í 1.–5. sæti.
- Jarl Sigurgeirsson hlaut 2.109 atkvæði í 1.-6. sæti.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði og systir Guðrúnar, fullyrti á Facebook að sigurinn væri í höfn löngu áður en lokatölur bárust frá talningarmiðstöðinni á Selfossi. Hún birti þar mynd af Guðrúnu, sem ávarpaði stuðningsmenn sína kl. 2:15 og þakkaði fyrir stuðninginn.
Sigurinn í höfn - Guðrún Hafsteinsdóttir mun leiða lista Sjálfstæðismanna í haust. Innilega til hamingju elsku systir. Hér ávarpar hún stuðningsmenn kl 2:15 í Hveragerði.
Posted by Aldis Hafsteinsdottir on Saturday, May 29, 2021