Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er hugsi yfir tillögu sem liggur fyrir alþjóðaþingi mannréttindasamtakanna Amnesty International sem fram fer í Dublin nú um helgina þar sem lagt er til að afglæpavæða bæði kaup og sölu á vændi. Hann segir að sér finnist það hryggilegt að hugsa til þess að á sama tíma og karlar um allan heim séu hvattir til að leggja sitt að mörkum til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og tryggja kynjajafnrétti í heforshe-átakinu þá séu ein stærstu og virtustu mannréttindasamtök heims að leggja þessar tillögur fram. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook sem Gunnar Bragi birti í morgun.
Þar segir hann að samkvæmt tillögunni verði „kaup, sala, milliganga um vændi og rekstur vændishúsa látinn óátalinn, eins og tíðkast bæði í Hollandi og Þýskalandi þar sem vændisiðnaðurinn blómstrar og mannsal áfram vandamál. Er það slíkt sem heimsbyggðin þarfnast? Á Íslandi hefur sænska leiðin verið valin og það sama á við um þó nokkur ríki í kringum okkur. Sú leið er ekki án galla en forsendurnar eru skýrar, að banna vændiskaup en ekki að refsa þeim sem neyðast til að stunda vændi. Vændi er ekki atvinnugrein og á ekki að fá að þrífast sem slík.“
Ég er hugsi yfir tillögu sem liggur fyrir alþjóðaþingi mannréttindasamtakanna Amnesty International sem fram fer í...Posted by Gunnar Bragi Sveinsson on Saturday, August 8, 2015
Auglýsing
Kjarninn greindi frá því í lok júlí að Amnesty International væru að íhuga að setja sér stefnu um að afglæpavæða eigi vændi. Það hefði komið fram í drögum um stefnu sem lögð var fyrir heimsþing samtakana sem fer fram nú um helgina.
Tillagan hefur vakið upp hörð viðbrögð víða um heim, og Ísland er þar engin undantekning. Á miðvikudag sendu sjö kvennasamtök frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau leggjast gegn því að Amnesty International setji sér stefnu um að afglæpavæða eigi vændi. „Ef Amnesty International mælir með að því að vændi verði gefið frjálst, er dólgum og vændiskaupendum þar með gefin friðhelgi og mannréttindi kvenna í vændi fótum troðin. Slík stefna myndi skaða þann mikilvæga trúverðugleika og það traust sem Amnesty nýtur í dag. Það má ekki gerast,“ segir í yfirlýsingunni.
Undir hana skrifuðu forsvarsmenn Stígamóta, Kvennaathvarfsins, Kvennaráðgjafarinnar, Samtaka kvenna af erlendum uppruna, Kvenfélagasambands Íslands, Kvenréttindafélagsins og Feminstafélags Íslands.