Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi þingflokksformaður Miðflokksins og oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi, sagði skilið við stjórnmálin síðasta haust. Í sumar sótti hann um starf hjá stofnun Sameinuðu þjóðanna um eyðimerkursamninginn (UNCCD). Hann fór í atvinnuviðtal í október, ásamt nokkrum öðrum, og bauðst starfið með skömmum fyrirvara fyrr í þessum mánuði. Ráðningin er til eins árs, að minnsta kosti til að byrja með.
Ísland er á meðal stofnenda vinahóps Eyðimerkursamningsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem kom því til leiðar að verndun, endurheimt og stöðvun landeyðingar hlyti ríkari sess í Heimsmarkmiðunum en áætlað var. Síðastliðið ár hefur Ísland einnig leitt samningaviðræður um ályktun er varðar eyðimerkurmyndun og landgræðslu. Gunnar Bragi segir tengsl Íslands við stofnunina hafa verið til staðar í mörg ár.
„Við höfum stutt við stofnunina í gegnum Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna og síðan hefur þetta verið hluti af okkar þróunarsamvinnu í nokkur ár,“ segir hann í samtali við Kjarnann. Þá segir hann utanríkisráðuneytið hafa stutt við samninginn með fjárframlögum, líkt og marga aðra, undanfarin ár.
Óljóst hvort hann geti sinnt háskólanáminu meðfram nýja starfinu
Stofnunin hefur aðsetur í Bonn í Þýskalandi og er Gunnar Bragi fluttur þangað en fjölskyldan er enn heima. „Það er verið að finna út úr þessu öllu saman.“ Gunnar Bragi starfar sem sérstakur ráðgjafi Ibrahim Thiaw, framkvæmdastjóra stofnunarinnar, en ráðgjafar hans eru nokkrir.
Gunnar Bragi hóf nám við Háskólann á Bifröst eftir að þingmennskunni lauk síðasta haust en hann segir það óljóst hvort hann geti stundað námið meðfram nýja starfinu. Aðspurður hvernig lífið sé eftir að þingmennskunni lauk segir hann það vera „æðislegt“.
Braut siðareglur með ummælum á Klaustri
Gunnar Bragi tók sæti á Alþingi árið 2009, fyrst fyrir Framsóknarflokkinn en hann fylgdi svo Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni út úr þeim flokki þegar sá síðarnefndi stofnaði Miðflokkinn í aðdraganda kosninga 2017. Gunnar Bragi sat bæði sem utanríkisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs á árunum 2013 til 2016. Hann var kjörinn fyrsti varaformaður Miðflokksins en það embætti hefur síðan verið lagt niður.
Stofnun Miðflokksins má rekja til afsagnar Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra vegna Panamaskjalanna í apríl 2016 og tap hans í formannskosningu í Framsóknarflokknum fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni í aðdraganda kosninga þá um haustið.
Árið 2019 komst ráðgefandi siðanefnd Alþingis að þeirri niðurstöðu að Gunnar Bragi og Bergþór Ólason, annar þingmaður Miðflokksins, hefðu brotið siðareglur Alþingis með ummælum sem þeir létu falla á barnum Klaustri þann 20. nóvember 2018, og voru tekin upp af öðrum gesti sem þar var. Gunnar Bragi fór í leyfi frá störfum eftir að málið kom fyrst upp og hélt því fram að hann hefði verið ofurölvi þegar atburðurinn átti sér stað. Sökum þess bar hann við minnisleysi.
Aðrir þingmenn sem tóku þátt í samtalinu, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem voru í Flokki fólksins þegar samtalið átti sér stað en gengu síðar til liðs við Miðflokkinn, brutu ekki gegn siðareglum að mati nefndarinnar.
Nefndin fór yfir ummæli Gunnars Braga um Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, og Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra. auk Ragnheiðar Runólfsdóttur, fyrrverandi sundkonu. Komist var að þeirri niðurstöðu að í ummælunum fælist vanvirðing í garð umræddra kvenna og þau væru til þess fallin að skaða ímynd Alþingis.