Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er sáttur við niðurstöðu alþjóðlegrar ráðstefnu um fjármögnun þróunaraðstoðar, og telur hana endurspegla helstu áherslur Íslands. Það sé mikilvægt að fátækustu ríkin njóti stærri hluta þróunarframlaga, að áhersla sé lögð á tillit til kynjajafnréttis við stefnumótun og að áhersla sé lögð á aðgengi að endurnýjanlegri orku og á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.
Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu niðurstöðu ráðstefnunnar, sem fór fram í Eþíópíu í vikunni, á miðvikudagskvöld, en ráðstefnunni lauk í gær. Hún felur í sér alþjóðlegt samkomulag um fjármögnun þróunar, sem er ætlað að stuðla að hagvexti og félagslegri þróun með tilliti til umhverfisverndar, að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Skjalið á að vera stefnumótandi í fjármögnun, fjárlagagerð og fjárfestingu í þróunarríkjum. Lesa má niðurstöðuna í heild sinni á vef Sameinuðu þjóðanna.
Meðal þess sem ríkin samþykktu er að á ný heita þau því að stefna á að setja 0,7 prósent af vergri landsframleiðslu í þróunarmál. Flest ríki eru þó langt frá takmarkinu enn, Ísland einna helst, en rétt um 0,2 prósent af landsframleiðslu fara til þróunarmála.
Nú þegar ráðstefnunni í Eþíópíu er lokið mun Gunnar Bragi kynna sér starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar í Malaví auk þess sem hann mun funda með ráðamönnum í landinu.
Gagnrýnt fyrir skattamálin
Niðurstöðu ráðstefnunnar hefur verið fagnað af stofnunum Sameinuðu þjóðanna, en hún er mjög umfangsmikil og tekur á ýmsum þáttum. Það sem helst var tekist á um, eins og utanríkisráðuneytið greinir frá, voru skattamál.
Þróunarríkin hafa barist fyrir því að skattanefnd Sameinuðu þjóðanna yrði breytt og hún efld til þess að tryggja að stórfyrirtæki nýti sér ekki spillingu og lélega lagasetningu í fátækum ríkjum. Nefndin er skipuð 25 skattasérfræðingum víða að úr heiminum.
Eins og fram kemur í tilkynningu utanríkisráðuneytisins voru mörg vestræn ríki á móti þessum breytingum og færðu þau rök fyrir því að OECD fari nú þegar með alþjóðleg skattamál auk þess sem öllum þróunarríkjum bjóðist að starfa með Alþjóðlegum vettvangi um gagnsæi og upplýsingaskipti í skattamálum.
Ríku löndin fengu sínu framgengt, en skattanefndin mun þó fjölga starfsdögum sínum og auknir fjármunir verða settir í hana.
Kjarninn hefur sent utanríkisráðuneytinu fyrirspurn og spurt um afstöðu Íslands til þessa máls.
Í drögum að niðurstöðum ráðstefnunnar kom fram að kallað væri eftir fullu gegnsæi þegar kemur að greiðslum frá stórum fyrirtækjum til ríkisstjórna, en Ástralir mótmæltu þessu og orðalagið var mildað á endanum.
Mannúðarsamtök hafa mótmælt endanlegu niðurstöðunum, ekki síst þætti Ástrala, og Pooja Rangaprasad frá samtökum um fjárhagslegt gegnsæi segir við Guardian að niðurstaðan muni festa í sessi ósanngjarnt kerfi. „Þróunarríkin hafa barist hart fyrir þessari nefnd, en samkomulagið mun ekki gera neitt annað en að halda þeim í lítilsvirðandi kerfi þar sem hópur 34 ríkja hefur öll völdin.“
Þróunarríkin vildu að í skattanefndinni myndu þau hafa jafn mikið að segja um það hvernig alþjóðareglur um skatta eru mótaðar, segir Helen Szoke hjá Oxfam um skattanefndina. „Í staðinn snúa þau heim með málamiðlun, sem þýðir að lélegar reglur og undanskot frá skatti munu halda áfram að ræna frá fátækasta fólki heimsins.“