„Eftir að átta karlmenn í röð hafa gegnt starfi aðalframkvæmdastjóra [sem Ban Ki-moon gegnir nú], er löngu kominn tími til að hæfar konur komi alvarlega til álita til að gegna þessu mikilvæga alþjóðlega starfi. Sama gegnir um forsæti Allsherjarþingsins. Það verður að leiðrétta kynjahallann í æðstu stöðum til að auka trúverðugleika Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, þegar hann ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í dag.
Hann gerði að umtalsefni mál Ali Mohammed al-Nimr sem bíður dauðarefsingar í Saudi Arabíu. Lýsti ráðherra sérstökum áhyggjum af stöðu hans og hvatti þarlend stjórnvöld eindregið til að þyrma lífi hans. Virða þyrfti mannréttindi, sem væri hornsteinninn í starfi Sameinuðu þjóðanna.
Gunnar Bragi fagnaði samþykkt Heimsmarkmiðanna og tilgreindi sérstaklega markmið á sviðum sjálfbærrar nýtingar á náttúruauðlindum, orkumála, jafnréttis og taugaskaða.
Enn fremur gerði hann loftslagsmál og áhrif þeirra á norðurskautið að umtalsefni og áréttaði mikilvægi þess að árangur náist á loftslagsráðstefnunni í París í desember, og sagði Gunnar Bragi frá markmiðum Íslands, í samvinnu við ríki Evrópusambandsins og Noreg, um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um fjörutíu prósent fyrir árið 2030.