Lögreglumaðurinn Gunnar Scheving Thorsteinsson var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í eftirstöðvum LÖKE-málsins svokallaða. Ákæruliðurinn sem Gunnar var sýknaður af snérist um meinta miðlun hans á persónuupplýsingum til þriðja aðila. Þá dæmdi Héraðsdómur að málskostnaður upp á rúmar fjórar milljónir króna yrði greiddur úr ríkissjóði.
Eins og Kjarninn greindi fyrstur frá á dögunum ákvað Ríkissaksóknari að fella niður veigameista ákærulið málsins, þar sem Gunnari var gefið að sök að hafa flett upp 45 konum í málaskrá lögreglu, svokölluðu LÖKE-kerfi, án þess að það tengdist störfum hans sem lögreglumaður. Ríkissaksóknari tók ákvörðun um að fella niður ákæruliðinn vegna ágalla á rannsókn málsins.
Málið var töluvert til umfjöllunar í fjölmiðlum á sínum tíma, en þar var meðal annars greint frá því hvernig Gunnar Scheving var handtekinn fyrir framan vinnufélaga sína. Í fjölmiðlum var einnig látið að því liggja að hann hafi notfært sér aðgang sinn að upplýsingakerfi lögreglunnar til að grafast fyrir um fórnarlömb kynferðisofbeldis.
Gunnar hefur ávallt neitað sök í málinu og lögmaður hans Garðar Steinn Ólafsson hefur haldið uppi harðri gagnrýni á lögreglurannsókn málsins, sem var á forræði Ríkissaksóknara en unnin á vegum lögreglunnar á Suðurnesjum.