Gylfi Arnbjörnsson, fyrrverandi forseti Alþýðusambands Íslands, hefur verið fenginn til starfa sem tímabundinn ráðgjafi við mótun framtíðarskipulags mennta- og barnamálaráðuneytis, sem Ásmundur Einar Daðason situr nú í.
Samkvæmt fréttatilkynningu stjórnvalda mun hann m.a. vinna með starfsmönnum stjórnarráðsins að yfirfærslu verkefna, meðal annars frá félagsmálaráðuneyti. Töluverð uppstokkun er að verða á verkefnum innan stjórnarráðsins samfara myndun nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Mennta- og barnamálaráðuneyti mun fara með málefni skóla og fræðslu, æskulýðs- og íþróttamál auk þess sem málefni barna og barnaverndar flytjast til ráðuneytisins. Í tilkynningu stjórnvalda segir að með sameiningu þessara málaflokka sé „lagt upp með að gefa hverju þessara málefna aukið vægi í stjórnkerfinu.“
Gylfi er fenginn inn sem tímabundinn ráðgjafi við mótun skipulagsins sem áður segir, en í upphafi mánaðar var sagt frá því að Ásdís Halla Bragadóttir hefði verið fengin inn sem verkefnastjóri til þess að undirbúa nýtt ráðuneyti vísinda, iðnaðar og nýsköpunar, sem verður í höndum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur á kjörtímabilinu.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að Gylfi hafi fjölþætta stjórnunarreynslu, en hann lauk meistaragráðu í hagfræði, stjórnun og opinberri stjórnsýslu frá Verslunarháskólanum í Kaupmannahöfn.
Hann var framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Alþýðubankinn hf., og síðar framkvæmdastjóri ASÍ áður en hann varð forseti ASÍ í heilan áratug frá 2008 til 2018.
Gylfi hefur frá því í apríl 2020 verið verkefnastjóri í átaksverkefnum stjórnvalda til að mæta þeim áskorunum sem vinnumarkaðurinn stóð frammi fyrir vegna aukins atvinnuleysis í kjölfar Covid-19 faraldursins.