Hækkun húsnæðisverðs undanfarna mánuði er ekki skipulagsmistökum að kenna, heldur afleiðing af vaxtalækkunum og breyttri neysluhegðun. Þetta skrifar Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands sem á sæti í peningastefnunefnd Seðlabankans, í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Í greininni fer Gylfi yfir áhrif húsnæðisverðs á verðbólgu, en samkvæmt honum hafa verðbreytingar á húsnæðismarkaði áhrif á tekjuskiptingu og verðtryggingu lána, auk þess sem það leikur stórt hlutverk í hagstjórn. Mikilvægt sé þó að rugla ekki þessu þrennu saman.
Húsnæðisverð hærra vegna vaxtalækkana
Samkvæmt Gylfa eru eru áhrif vaxta á húsnæðisverð mikilvæg fyrir hagstjórn. Hann segir lækkun vaxta valda því að verð á öllum eignum – húsnæðis, hlutabréfs, sumarbústaða og listaverka – hækki. Hins vegar ætti hærra eignarverð einnig að auka eftirspurn og hvetja fyrirtæki til að ráðast í fjárfestingu og framleiðslu á þessum eignum.
Samkvæmt Gylfa var lækkun seðlabankavaxta í fyrra ætlað að auka eftirspurn á meðan farsótti gengi yfir og bæta þannig upp fyrir minni útflutning ferðaþjónustu. Þessi lækkun hafði í för með sér örari hækkun húsnæðisverðs, en sú hækkun var ekki fyrirséð vegna þess að óttast var að farsóttin hefði neikvæð áhrif á eftirspurn eftir húsnæði.
„Það er ekki rétt eins og haldið hefur verið fram að vextir hafi verið hækkaðir á þessu ári vegna þess að lóðaskortur hafi haft í för með sér hækkun húsnæðisverðs sem síðan drífi verðbólguna áfram,“ segir Gylfi. „Vextir hafa einnig verið lækkaðir í öðrum löndum á COVID-tímum og áhrifin þar, eins og hér, komið fram í þróun húsnæðisverðs.“
Því segir Gylfi að vaxtahækkun Seðlabankans í síðustu viku hafi „alls ekki“ verið vegna þess að sveitarfélög hefðu ekki skipulagt ný hverfi, heldur vegna þess að sú peningastefna sem hefur örvað hagkerfið á tímum faraldursins eigi ekki lengur við.
Hægt er að lesa grein Gylfa í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.