Afhendingaröryggi raforkunnar, virkjanakostir sem þegar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar og stækkun núverandi virkjana eru atriði sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs nefnir þegar hún er spurð út í þau orð Sigurðar Inga Jóhanssonar innviðaráðherra að virkja þurfi meira á Íslandi.
Katrín sagði í samtali við blaðamann Vísi í beinni útsendingu eftir ríkisstjórnarfund í morgun að Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra hefði tekið afhendingaröryggi raforku upp á fundinum. „Að sjálfsögðu er það okkar allra hagur að það sé hægt að keyra fiskimjölsverksmiðjurnar á grænni orku,“ sagði Katrín þegar hún var spurð hvort að virkja þyrfti meira m.a. í ljósi þeirra tíðinda að Landsvirkjun hefði orðið að skerða afhendingu á raforku til verksmiðjanna. „Hins vegar má ekkert gleyma því að við erum auðvitað með ákveðna kosti í nýtingarflokki og það er hægt að ná fram heilmikilli orkuframleiðslu með þeim kostum sem þar eru og líka með stækkun á núverandi virkjunum.“
Forsætisráðherra sagði það þjóna „mjög litlum tilgangi að reyna alltaf að færa þessa umræðu í skotgrafir. Við erum með tól og tæki til að geta tryggt þetta framboð en hins vegar hef ég haft áhyggjur af flutningskerfinu og að þar megi ráðast í úrbætur.“ Benti hún á að á síðasta þingi hefði verið lagt fram frumvarp til að einfalda ákveðnar ákvarðanatökur í kringum lagningu á háspennulínum. Það hafi ekki náð fram að ganga.
Hún sagðist taka því alvarlega „að sjálfsögðu“ að skerða hafi þurft orku til fiskimjölsverksmiðja. „Það er yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að færa sig yfir í græna orku“.
Orkuskorturinn sem veldur því að skerða þarf afhendingu rafmagns til fiskimjölsverksmiðja og nokkurra stórnotenda m.a. álvera og gagnavera, er að sögn Landsvirkjunar tilkominn vegna nokkurra þátta.
Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í gær var í fyrsta lagi nefnt að raforkuvinnsla hjá öðrum framleiðanda, sem átti að koma inn í vikunni, kæmi ekki inn í kerfið fyrr en í lok næstu viku. Þá nægi full keyrsla í Vatnsfellsvirkjun ekki til að halda uppi orkuframleiðslu á Þjórsársvæði. „Krókslón hefur lækkað það mikið að byrjað var að hleypa vatni framhjá Vatnsfelli í dag til að stöðva lækkun, en einnig verður að draga úr orkusölu til að draga úr vinnslu,“ sagði í tilkynningunni. Þar var einnig tekið fram að bilun hefði komið upp í vél í Búrfelli og fyrirséð væri að hún kæmi ekki í rekstur fyrr en með vorinu.
Flutningskerfið flöskuháls
Landsvirkjun hefur fullnýtt getu flutningskerfisins til að flytja orku frá Norðausturlandi til álagspunkta á Suðvesturlandi, en flutningskerfið ræður ekki við að flytja alla þá orku sem hægt væri að færa milli landshluta, sagði ennfremur í tilkynningunni. „Hinn 23. ágúst sl. fylltist Hálslón á Kárahnjúkum og þremur dögum síðar nam afl yfirfallsins um 2000 MW. Á 10 dögum rann því framhjá orka, sem samsvarar heilsárnotkun allra bræðslna á landinu, þegar vertíð er góð. Með sterkara flutningskerfi hefði mátt nýta stóran hluta þeirrar orku sem rann fram hjá. Áætla má að takmarkanir í flutningskerfinu dragi úr vinnslugetu kerfisins sem nemur allt að 500 GWh. Að loknu sumri með jafn ójafnri dreifingu góðviðrisdaga og raun bar vitni koma áhrifin fram með sérstaklega sterkum hætti.“