Dagurinn hefur verið sérkennilegur. Skuggi hryðjuverka liggur yfir landinu. Í Gex, litlum, friðsælum bæ þar sem ég bý, ekki langt frá Lyon, eru allt í einu undarlegir lögreglubílar á sveimi. Þótt að sólin skíni og allt virðist leika í lyndi er stemningin einhvern veginn breytt. Það er ókyrrð í loftinu. Fólk á förnum vegi ræðir sín á milli: „Er þetta að gerast aftur?“ Og svo er það blóðbaðið í Túnis. Ætlar þetta engan endi að taka?
Öll öryggisgæsla í kringum Lyon og nágrenni hefur verið hert í kjölfar árásarinnar á gasvinnslustöðina í Saint-Quentin Fallavier sem er í 40 kílómetra fjarlægð frá Lyon. Þar var maður afhöfðaður og einhverjir særðust. Einn er í haldi lögreglu grunaður um ódæðið. Hann er sagður hafa keyrt á bíl inn í verksmiðjuna. Forseti Frakklands, Francois Hollande, segir þetta vera hryðjuverk og að tilgangurinn hafi verið að sprengja upp verksmiðjuna. Lögregluyfirvöld hafa sagt að hinn látni hafi verið kaupsýslumaður úr nágrenninu. Höfuð hans var hengt upp á hlið gasverksmiðjunnar með arabískum áletrunum. Talið er víst að morðinginn sé íslamskur öfgamaður.
Ráðamenn franska ríksins hafa brugðist hratt við og hert alla öryggisgæslu og hækkað viðbúnaðastig í botn í kringum Lyon og nágrenni. Innanríkisráðherrann, Bernard Cazeneuve, mætti á staðinn í morgun og greindi fjölmiðlum frá því að fáni íslamska ríksins hefði fundist rétt hjá morðstaðnum. Það liggur í svörum frönsku ráðherranna að þetta sé enn ein stríðsyfirlýsing Íslamska ríksins við Frakkland. Og að við því verði brugðist.
Hryðjuverkadagur
Á sama tíma berast hryllilegar fréttir frá Túnis: hryðjuverkaárásin á baðströndinni kostaði 27 manns lífið; mannskæðasta árás sem gerð hefur verið í landinu í langan tíma. Margir hinna látnu voru erlendir ferðamenn. Í janúar síðast liðnum létust 17 manns í árásum öfgamanna í París. Tilgangur árásarinnar í morgun virðist vera sá sami og þá: að vekja upp ótta og tortryggni í garð múslima til þess að þeir einangrist enn frekar í Frakklandi og að ungt fólk gangi síðar til liðs við öfgasamtaka á borð við Íslamska ríkið. Yfirvöld gáfu til kynna í vor að hert eftirlit með grunuðum hryðjuverkamönnum hefði leitt til þess að fjöldi árása hefði verið afstýrt á þessu ári.
Einn besti vinur sex ára sonar míns er múslimi. Á leið frá skólanum í dag spjallaði ég aðeins við móður hans. Hún var miður sín yfir þessum fréttum: „Þetta er bara hryllilegt. Það er erfiðara að vera múslimi eftir svona árás. Þessir menn eru að eyðileggja allt fyrir okkur“.