Frá því að farið var að halda dag íslenskrar náttúru hátíðlegan fyrir rúmum áratug hefur fjölmiðlafólki eða fjölmiðli verið veitt verðlaun fyrir vandaða og eftirtektarverða umfjöllun eða fræðslu um náttúru Íslands. Í dag, á degi íslenskrar náttúru, verða engin slík verðlaun veitt.
Fjölmiðlaverðlaunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins var komið á á þeim tíma sem lítið var fjallað um umhverfis- og loftslagsmál. Það er mat ráðuneytisins að fjölmiðlar hafi stóraukið umfjöllun sína um umhverfismál síðustu ár, segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans. Sú umfjöllun hefur verið málaflokknum mjög mikilvæg og haft þau áhrif að auka almennan skilning og vitundarvakningu í umhverfismálum.„Verðlaunin hafa verið þáttur í þessari þróun, en þeim var ætlað að hvetja til hverskyns umfjöllunar um loftslags- og umhverfismál í fjölmiðlum. Ráðuneytið er afar þakklát fyrir þá þróun og telur verðlaunin hafa þjónað tilgangi sínum að sinni.“
Efnt verður þó til viðburðar vegna dags íslenskrar náttúru í ráðuneytinu, þar sem ráðherra mun undirrita friðlýsingu vatnasviðs Jökulfalls og Hvítár. Þá verður staðfest að íslensk stjórnvöld hafa tekið svonefndri Bonn-áskorun, sem fela í sér það markmið að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5 prósent landsins, í stað 1,5 prósent nú. Loks verður tilkynnt hver hljóti náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti þetta árið.
Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í byrjun október árið 2010 að 16. september ár hvert yrði þaðan í frá dagur íslenskrar náttúru. Fyrir valinu varð þessi dagsetning þar sem þetta er afmælisdagur Ómars Ragnarssonar.