Miklir þurrkar vikum saman hafa breytt mörgum stórfljótum Evrópu í lækjarsprænur. Svo langvinn hefur þurrkatíðin verið að nú er útlit fyrir að skipaflutningar um Rínarfljót leggist að mestu af ef himnarnir fara ekki að opnast fljótlega. Sífellt erfiðara er orðið að flytja vörur um ána, m.a. kol og bensín. Ekki er hægt að fulllesta skipin því vatnsborðið er orðið svo lágt. Þýsk yfirvöld standa frammi fyrir miklum vanda og óttast er að erfiðara verði að flytja aðföng til verksmiðja og orkufyrirtækja. Í frétt Euronews um málið segir að yfirvöld óttist að þurrkarnir verði enn eitt höggið á efnahagslífið og að meiri samdráttur vofi því yfir.
Vörur eru fluttar um stórfljót Evrópu en líklega er þessi flutningaleið hvergi jafn mikilvæg og í Þýskalandi.
Svo lágt er yfirborð vatnsins í Rínarfljóti orðið að ef fram heldur sem horfir verður það á einum stað á mikilvægasta flutningssvæði árinnar aðeins um fjörutíu sentímetrar. Og mun svo halda áfram að lækka ef engin verður rigningin.
Þetta er ekki í fyrsta skipti á síðustu árum sem áhyggjur vakna af flutningsleiðinni um Rín. Í október árið 2018 lækkaði sögulega mikið í ánni og á einum stað var það aðeins 27 sentímetrar.
Skipafélögin vonast til þess að hægt verði að sigla áfram um ána þótt skipin flytji nú aðeins brot af þeim farmi sem til stóð svo þau risti ekki jafn djúpt. Ein afleiðingin gæti þó orðið sú að ekki takist að flytja bensín og dísilolíu til bensínstöðva víðs vegar um landið í nægu magni. Það gerðist í þurrkunum árið 2018 og er sú hætta yfirvofandi á ný.
Yfirvöld hafa beint vöruflutningum í járnbrautarlestir í meira mæli til að bregðast við vandanum. Slíkir flutningar eru dýrari og taka lengri tíma.
Þurrkarnir eru einnig farnir að segja verulega til sín í Frakklandi og á Ítalíu. Hver hitabylgjan á fætur annarri hefur herjað á íbúana í sumar og eru skýringarnar raktar til loftslagsbreytinga af mannavöldum.
Þýska skipafélagið HGK er eitt þeirra sem er í vandræðum með að flytja vörur á áætlun. „Það er ekki hægt að neita því að loftslagsbreytingar eru farnar að eiga sér stað og skipaiðnaðurinn þarf að aðlagast breyttu ástandi,“ hefur Euronews eftir Christian Lorenz, talsmanni skipafélagsins. HGK er að undirbúa sig fyrir nýjan veruleika, segir hann, þar sem lítið vatn í ánum gæti orðið viðvarandi vandamál og algengara með áframhaldandi breytingum á loftslagi.
Öll ný skip sem HGK kaupir verða smíðuð með það í huga að geta siglt um vatnsminna Rínarfljót.