Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) leggst alfarið gegn stjórnarfrumvarpi Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra þess efnis að áfengisframleiðendur fái að selja allt að 500 þúsund lítra af eigin bjórframleiðslu í smásölu á framleiðslustað. ÁTVR telur að það hafi „alvarleg og verulega neikvæð áhrif á lýðheilsu þjóðarinnar“ ef frumvarpið verði samþykkt á þingi.
„Verði fyrirliggjandi frumvarp að lögum verður opnað fyrir markaðslögmálin í smásölu áfengis með tilheyrandi samkeppni, söluhvötum og hagnaðardrifinni smásölu áfengra drykkja sem felur í sér grundvallar stefnubreytingu og verulegt frávik frá einkaleyfi ÁTVR. Augljóst er að smásölustöðum áfengis hér á landi mun stórfjölga verði frumvarpið að lögum. Liggur beint við að neysla áfengis mun aukast með augljósum neikvæðum samfélagslegum áhrifum,“ segir í umsögn ÁTVR um frumvarp ráðherra, sem lagt var fram í byrjun apríl.
Drykkirnir sem áfengisframleiðendur mættu selja viðskiptavinum sínum á framleiðslustað samkvæmt frumvarpinu yrðu einungis áfengt öl og má áfengisprósentan í bjórnum að hámarki vera 12 prósent. Sambærilegt frumvarp var einnig lagt fram á þingi í fyrra, þá af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur fyrrverandi dómsmálaráðherra, en það varð ekki að lögum.
Þá lagðist ÁTVR, rétt eins og nú, einnig hart á móti frumvarpinu og ítrekar ríkisvínsalinn fyrri sjónarmið sín nú og bætir við fleirum. Að mati ÁTVR er það „augljóst“ að ef þetta mál, eða þá annað fyrirliggjandi þingmál, um vefverslun með áfengi, verði samþykkt, muni það leiða til þess að einkaréttur ÁTVR á vínsölu hérlendis líði undir lok þar sem skilyrði Evrópuréttar fyrir einkaleyfinu verði ekki lengur fyrir hendi.
„Hvort sem um vefverslun með áfengi eða smásölu áfengis á framleiðslustað er að ræða þá er í báðum tilvikum lagðar til grundvallarbreytingar á þeirri áfengisstefnu sem fylgt hefur verið hér á landi í heila öld sem byggja á augljósum lýðheilsu- og samfélagsrökum sem er grundvöllur heimildar íslenska ríkisins til reksturs ríkiseinkasölu samkvæmt sérstakri yfirlýsingu við EES-samninginn. Hornsteinn áfengisstefnunnar hefur verið rekstur ríkiseinkasölu með áfengi á smásölustigi. Að baki ríkiseinkasölunni býr sú staðreynd að aukið aðgengi að áfengi leiðir til meiri áfengisneyslu og þar með meiri samfélagslegs skaða. Um það vitnar reynsla margra þjóða,“ segir í umsögn ÁTVR, sem forstjórinn Ívar J. Arndal undirritar.
Í umsögn ÁTVR segir hann valið standa á milli þess að „viðhalda núverandi fyrirkomulagi í áfengismálum, sem gefist hefur vel og sett ísland á meðal fremstu þjóða í áfengisvörnum og hefur stuðlað að minni áfengisneyslu og betri lýðheilsu og almannaheill, eða leggja áfengisstefnuna til hliðar og gefa smásölu áfengis alfarið frjálsa“ og segir að í þeim efnum verði „ekki bæði og sleppt og haldið eins og ÁTVR hefur bent á og rökstutt i fyrri umsögnum um lagafrumvörp á þessu sviði“.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að það sé til þess ætlað að gera smærri áfengisframleiðendum kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað og er frumvarpinu einkum ætlað að styðja við smærri brugghús á landsbyggðinni. ÁTVR telur efni frumvarpsins ekki í samræmi við markmiðin og að tillaga um sölu áframleiðslustað sé bæði „óskýr og alltof víðtæk“.
ÁTVR telur að ýmislegt í frumvarpinu þarfnist frekari skoðunar, eins og skilgreining vöru sem undanþegin verði einkasölunni, magn áfengisins sem selja má á framleiðslustað og skilgreining þeirra framleiðenda sem undanþágunni er ætlað að ná yfir. Síðastnefnda atriðið segir ÁTVR að þurfi að skoða til þess að „fyrirbyggja sniðgöngu við heimildina“.
Í umsögn ÁTVR segir að hugtakið „framleiðslustaður“ sé ekki nægilega vel skilgreint í frumvarpinu. ÁTVR segir að „framleiðslustaður“ gæti því allt eins verið „öldurhús eða stórmarkaður á höfuðborgarsvæðinu“ og segir í umsögninni að það sé einmitt þróunin sem orðið hafi í Finnlandi, þar sem opnað hefur verið fyrir smásölu brugghúsa með svipuðum hætti og lagt er til í frumvarpi ráðherra.
Kaupendur þurfi að hlýða á fyrirlestur um brugghúsið
Í umsögn ÁTVR segir að í öðrum norrænum ríkjum hafi verið lögð áhersla á að sala brugghúsa „beint frá býli“ verði að byggja á röksemdum um eflingu ferðamannaiðnaðar, þar sem áherslan sé á heimsóknir ferðamanna og annarra á framleiðslustaðinn, en ekki smásöluna sjálfa.
ÁTVR bendir til dæmis á að í um 340 blaðsíðna langri sænskri skýrslu um álitamál tengd svipaðri útfærslu þar í landi sé lagt til „að aðeins þeim einstaklingum sem hafa farið í fræðsluferð um framleiðslustaðinn sem greitt hefur verið fyrir eða hlýtt á fyrirlestur um framleiðsluna verði heimilt að kaupa áfengi á framleiðslustað“.
Engin slík skilyrði sé að finna í frumvarpi dómsmálaráðherra, sem leiði til þess að handhafi leyfis til sölu á framleiðslustað megi selja öllum sem hafa náð áfengiskaupaaldri áfengi. „Augljóst er að mikill meirihluti sölunnar yrði til viðskiptamanna sem myndu koma á framleiðslustaðinn í þeim eina tilgangi að versla áfengi sem stæðist ekki kröfur EES-réttarins til einkaleyfis ÁTVR eða reglur um bann við mismunun,“ segir í umsögn ÁTVR.
Óútfært hvaða aðili á að fylgjast með
Eins og áður var nefnt myndu brugghús fá heimild til þess að selja allt að 500 þúsund lítra af bjór á hverju ári til viðskiptavina sinna ef frumvarp dómsmálaráðherra yrði að lögum.
Þegar málið var lagt fram á fyrra þingi var þessi undanþáguheimild hin sama, og þá benti ríkisskattstjóri á að ekkert væri kveðið á um það hvaða aðili ætti að sinna eftirliti með því að brugghús seldu ekki fleiri en lítrana 500 þúsund sem þeim er heimilt að selja, né hver viðbrögðin ættu að verða ef brugghús færu fram úr því hámarki.
„Frumvarpið nú er sama marki brennt,“ segir í umsögn frá ríkisskattstjóra.