Landssamtökin Þroskahjálp fagna drögum að frumvarpi um breytingar á skipulagslögum þar sem m.a. er að finna ákvæði er veitir sveitarfélögum heimild til þess að gera kröfu um að 25 prósent byggingarmagns í nýju deiliskipulagi verði fyrir hagkvæmar íbúðir, félagslegar íbúðir, eða aðrar leiguíbúðir, óháð því hvort sveitarfélagið, ríkið eða einkaaðili á landið sem um ræðir.
Í umsögn samtakanna um frumvarpsdrögin, sem Unnur Helga Óttarsdóttir formaður Árni Múli Jónasson framkvæmdastjóri rita, eru hlutaðeigandi stjórnvöld og Alþingi hvött til að hraða meðferð málsins þannig að frumvarpið verði sem fyrst að lögum. Það muni greiða fyrir því að „sveitarfélög standi við lagalegar skyldur sínar til að fatlað fólk hafi tækifæri til húsnæðis og eigin heimilis, án óforsvaranlegs dráttar“.
Unnur Helga og Árni Múla benda í umsögn Þroskahjálpar á að í lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, er mælt fyrir um „að fatlað fólk eigi rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra“ og að „óheimilt sé að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi“. Þá segir í bráðabirgðaákvæði í lögunum að fötluðu fólki sem býr nú á stofnunum eða herbergjasambýlum skuli bjóðast aðrir búsetukostir.
Í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018, sem skilað var til félags- og vinnumarkaðsráðherra síðasta vor, kom fram að 323 fatlaðir einstaklingar væru á biðlista eftir húsnæði og 163 byggju í herberjasambýlum og að samkvæmt því þurfi að byggja allt að 486 íbúðir til að eyða biðlistum og leggja niður herbergjasambýli.
Óforsvaranlegt og ólöglegt
„Margt fólk með þroskahömlun eða skyldar fatlanir hefur beðið eftir íbúð, sem það á lagalegan rétt á, mjög lengi,“ bendir Þroskahjálp á í umsögninni. „Dæmi eru um að fólk hafi þurft að bíða yfir áratug og jafnvel lengur eftir að eignast eigið heimili. Með þessari óforsvaranlegu og ólöglegu framkvæmd er vegið mjög alvarlega að margvíslegum mikilvægum mannréttindum, s.s. réttinum til sjálfstæðs og eðlilegs lífs, og réttinum til að eiga einkalíf og fjölskyldulíf. Þetta er ólíðandi ástand sem ábyrg stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga verða að setja í algjöran forgang að bæta úr.“
Samtökin leggja áherslu á að framkvæmd lagaákvæða um niðurlagningu herbergjasambýla og stofnana, þar sem fatlað fólk býr, verði hraðað með því að ráðast nú þegar í stórátak við byggingu íbúða fyrir fatlað fólk.