Það er stundum sagt að á skjalsöfnum ríki friður og ró og tíminn líði þar jafnvel hægar en annars staðar. Margir danskir kráareigendur geta kannski tekið undir þetta eftir að þeim barst fyrir nokkru bréf frá danska ríkisskjalasafninu. Í bréfinu stóð að síðan árið 1912 hefðu kráareigendurnir brotið dönsk lög. Kórónulögin. Og nú gengi það ekki lengur. „Niður með kórónurnar“ sagði ríkisskjalasafnið.
Máttu baka brauð, eima og brugga bjór og með leyfi konungs
Á þrettándu, fjórtándu og fimmtándu öld fengu margar krár í Danmörku sérstakt konunglegt leyfi til að baka brauð, eima áfengi og brugga bjór ásamt því að bjóða uppá gistingu. Þessar krár stóðu yfirleitt við helstu vegi í landinu og tilgangurinn var að tryggja að ferðalangar gætu fengið gistingu og mat á ferðum sínum.
Reglur um starfsemi veitinga-og gististaða eru gjörbreyttar frá því sem áður var en hinir konunglegu kráareigendur hafa haldið fast í notkun kórónunnar gegnum árin. Enginn hefur amast við þessu fyrr en nú.
Kráareigendur, sem fengu þessi konunglegu leyfi, máttu auglýsa utandyra og innan að kráin hefði áðurnefnd konungleg forréttindi og auk þess máttu þeir líka láta gera kórónueftirlíkingar og hengja upp utandyra. Margir létu líka prenta kórónu ásamt nafni kráarinnar á servíettur, bréfsefni, bjórglös, diska og jafnvel hnífapör. Áður fyrr var það talinn ákveðinn gæðastimpill að skarta slíku konunglegu leyfi, þá var ekki búið að finna upp stjörnugjöf í dagblöðum og franski hjólabarðaframleiðandinn Michelin ekki orðinn yfirdómari í matargerðarlistinni. Reglur um starfsemi veitinga-og gististaða eru gjörbreyttar frá því sem áður var en hinir konunglegu kráareigendur hafa haldið fast í notkun kórónunnar gegnum árin. Enginn hefur amast við þessu fyrr en nú.
Röggsami deildarstjórinn skrifar bréf
Fyrir rúmum þremur árum kom til starfa nýr deildarstjóri á danska ríkisskjalasafninu. Röggsamur maður sem rak fljótlega augun í að árið 1912 hefðu verið sett lög sem bönnuðu, öðrum en útvöldum, að skreyta sig með „kongekronen“ og að þeim sem notuðu slíkar skreytingar bæri að fjarlægja þær. Sá röggsami sá engin merki þess að reynt hefði verið að framfylgja lögunum og ákvað að nú yrði þar breyting á.
Hann komst fljótlega yfir lista yfir þær krár sem fengið höfðu kórónuleyfið, þær reyndust flestar enn við lýði og fengu seint á árinu 2013 bréf frá ríkisskjalasafninu þar sem þeim var bent á þetta langvarandi lögbrot sem nú yrði ekki umborið lengur. „Niður með kórónurnar nú þegar“ sagði í bréfi deildarstjórans. Hann benti jafnframt á að kránum væri heimilt að skreyta sig með svokallaðri opinni kórónu.
Samkvæmt dönskum lögum er óheimilt að nota svokallaðar „lokaðar“ kórónur til markaðssetningar. Myndin hér að ofan er dæmi um slíka kórónu.
Héldu að bréfið væri grín
Þegar kráareigendur fengu bréfið frá ríkisskjalasafninu haustið 2013 héldu margir þeirra að þetta væri grín eða að það hefði verið sent fyrir misskilning. Þeir komust hins vegar fljótlega að því að á skjalasafninu voru menn ekki að spauga því annað bréf fylgdi fljótlega í kjölfarið. Þar var erindið ítrekað og óskað svara við því hvenær viðkomandi hygðist fjarlægja kórónurnar. Ef ekki yrði brugðist við erindinu myndi ríkisskjalasafnið grípa til aðgerða.
Í bréfinu frá safninu kom fram að fjölskylda drottningar hefði farið fram á að kórónurnar yrðu fjarlægðar. Kráareigendur eru ekki trúaðir á það og segjast vissir um að þetta sé einkaframtak hins röggsama deildarstjóra. Síðastliðið haust kom svo enn eitt bréfið frá deildarstjóranum og gefinn frestur til áramóta, ella yrði gripið til „viðeigandi ráðstafana“ án þess að það væri nánar útskýrt.
Kráareigendur ætla að flýta sér hægt, mjög hægt
Einn kráareigandi svaraði strax og sagði að kórónurnar á sínu húsi hefðu verið settar upp árið 1682 og þær yrðu ekki fjarlægðar. Annar sagði að nú tæki hann sér eina öld í að hugsa málið, það væri jafn langur tími og ríkisskjalasafnið hefði þurft til að koma skipununum til kráareigendanna. „Ég leigi ekki stiga á morgun.“
Sá þriðji sagði að þótt herinn kæmi á skriðdrekum og orustuþotum dytti sér ekki í hug að fjarlægja kórónurnar. Margir aðrir kráareigendur hafa talað á svipuðum nótum og enginn sem hefur tjáð sig ætlar að hlíta fyrirmælum ríkisskjalasafnsins.
Margir þingmenn hafa tjáð sig um kórónumálið. Þeir eru allir undrandi á framgöngu ríkisskjalasafnsins og hafa sagt að þetta virðulega og mikilvæga safn hljóti að hafa brýnni verkefnum að sinna, hvað svo sem lögin segi. Auk þess leiki vafi á hvort safninu sé stætt á þessari kröfu sem aldrei fyrr hafi verið sett fram, þarna hafi einfaldlega skapast hefðarréttur. Einn þingmaður benti líka á að flestar þessara kráa væru friðaðar og það bryti í bága við lög að breyta þar nokkru. „Ætlar ríkisskjalasafnið að brjóta lög til að framfylgja öðrum lögum?“ spurði þessi þingmaður.
Óljóst um framhaldið
Á þessari stundu veit enginn hvert framhaldið verður. Danskir fjölmiðlar fylgjast grannt með og glöggt má sjá að þeir skemmta sér vel yfir framgöngu deildarstjórans hjá ríkisskjalsafninu. Fjölmiðlarnir hafa líka velt því fyrir sér hvort ríkisskjalasafnið sé einhvers konar yfirvald sem vald til að skipa fyrir um skilti og merkingar. „Ef safnið telur að lög hafi verið brotin hlýtur að að þurfa að kæra málið,“ sagði einn þingmaður „það kallar á flókin málaferli og hver hefur áhuga fyrir því.“ „Starfsmenn ríkisskjalsafnsins geta skrifað eins og þeim sýnist en þeim væri kannski nær að reyna að sjá til þess að verðmæt skjöl hverfi ekki úr safninu“ (Þarna vísar þingmaðurinn til þess að nýlega kom í ljós að hundruð verðmætra skjala finnast ekki í safninu og talið að þeim hafi verið stolið).
Blaðamaður Jótlandspóstsins mælti sennilega fyrir munn margra Dana þegar hann dró saman kjarna málsins í tveimur orðum: „Typisk papirnusseri.“