Á síðasta ári neyddist ein flugvél, sem ætlaði að lenda á Keflavíkurflugvelli, til að lenda annars staðar vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna, eftir að undirbúningur aðflugs var hafinn. Flugvélin lenti á Akureyri. Árið 2013 neyddust tvær vélar á leið til Keflavíkurflugvallar að lenda annars staðar og lentu þær á Egilsstöðum og Akureyri. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs hafa tvær vélar á leið til Keflavíkur lent í Reykjavík, ein á Egilsstöðum og ein á Akureyri. Ástæðan fyrir breyttum lendingarstað er oftast veður.
Þetta er meðal þess sem lesa má úr svari innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um lendingar flugvéla á Keflavíkurflugvelli og varaflugvöllum. Hann spyr meðal annars hversu margar flugvélar sem áttu að lenda á Keflavíkurflugvelli hafi neyðst til að lenda á Reykjavíkurflugvelli, Akureyraflugvelli og Egilsstaðaflugvelli. Tölur voru fengnar frá Icelandair og ná til áranna 2005 til 2015. Upplýsingarnar miða allar við flug þar sem undirbúningur aðflugs var hafinn en flugvélin þurfti frá að hverfa, oftast vegna veðurs.
Frá árinu 2005 til loka apríl 2015 hafa flugvélar á leið til Keflavíkur lent á einhverjum af völlunum þremur í samtals 33 skipti, þar af tíu sinnum í Reykjavík, 14 sinnum á Egilsstöðum og níu sinnum á Akureyri. Af 33 skiptum voru tíu þeirra árið 2008, þar af sex lendingar á Egilsstöðum, en bent er á það ár hafi veðurfar verið nokkuð erfitt. Sama megi segja um síðasta vetur, en fjórum sinnum hefur verið hætt við aðflug og lent annars staðar en í Keflavík það sem af er ári 2015. Þá voru þrjár flugvélar sem breyttu lendingaráætlun frá Keflavíkurflugvelli árið 2010 en það ár olli eldgosið í Eyjafjallajökli erfiðleikum í flugi. Þrjár vélar lentu þá í Reykjavík, þrjár á Akureyri og ein á Egilsstöðum.
Flugvélar sem neyðast vegna ófyrirséða atburða að breyta um lendingarstað eftir að aðflugs-undirbúningur er hafinn mynda brot af öllum þeim lendingum sem verða á Keflavíkurflugvelli. Í svari innanríkisráðherra er birt tafla yfir árlegan fjölda „hreyfinga“ flugvéla á Keflavíkurflugvelli, það eru bæði flugtak og lending.
Til dæmis voru hreyfingar á árinu 2014 um 71 þúsund talsins. Ef gert er ráð fyrir að helmingur hafi verið lendingar, eða um 35.500 lendingar, þá þurfti að lenda annars staðar í 0,0029 prósent tilvika. Árið 2008, þegar flestar flugvélar eða alls tíu talsins breyttu um flugvöll eftir að undirbúningur að lendingu var hafinn, var sama hlutfall um 0,047 prósent. Það eru tíu skipti af alls um 21.500 lendingum í Keflavík það ár.