Fjögur göt eru á Nord Stream 1 og 2 gasleiðslunum en ekki þrjú líkt og greint hafði verið frá. Sænska strandgæslan hefur staðfest við fjölmiðla að fjórða gatið sé á Nord Stream 2, nýrri leiðslunni í Eystrasalti og sé staðsett um það bil mitt á milli gatanna tveggja á Nord Stream 1. Aftonbladet hefur eftir jarðskjálftafræðingi að ekki sé útilokað að önnur sprenging hafi orðið á svæðinu.
Á mánudag uppgötvuðust þrjú göt á leiðslunum tveimur sem liggja milli Rússlands og Þýskalands. Eitt á Nord Stream 2, suðaustan við Borgundarhólm í danskri efnahagslögsögu, og tvö á Nord Stream 1 nokkuð norðaustar á svæðinu, annað þeirra innan sænskrar lögsögu, segir í frétt Aftonbladet í morgun. Metangas, sem var í leiðslunum, lekur í miklu magni út um götin.
Tveir skjálftar mældust á svæðinu í byrjun vikunnar og er talið að þeir séu til marks um að sprenging hafi orðið. Annar skjálftinn varð kl. 2.03 aðfaranótt mánudags, á sömu slóðum og göt urðu á Nord Stream 2. Skjálftinn mældist 1,8 stig. Seinni sprengingin sem fram kom á skjálftamælum varð á sömu slóðum og götin tvö mynduðust á Nord Stream 1. Hún varð kl. 7.04 á mánudagsmorguninn og mældist skjálftinn 2,3 stig. Það þýðir að sprengingin var fimm sinnum kraftmeiri en sú fyrri.
Sjórinn ólgar undan metangasinu sem streymir upp og talið er að götin á leiðslunum sem liggja á um 80 metra dýpi á hafsbotni séu tugir metrar í þvermál. Sænska strandgæslan staðfestir við Aftonbladet að fjórði svelgurinn sem sjáist sé um 200 metrar í þvermál.
Kjarninn fjallaði ítarlega um Nord Stream 1 og 2 í fréttaskýringu í gær. Hana er hægt að lesa hér. Í henni er rakinn aðdragandi þess að gasleiðslurnar miklu voru lagðar í Eystrasaltið og farið yfir kenningar um að skemmdarverk hafi verið unnin á þeim.