Um síðustu helgi var stjórnarfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitastjórnarráðherra um breytingu á sveitarstjórnarlögum samþykkt. Í lögunum segir meðal annars að stefnt skuli að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði ekki undir 1.000 manns. Það er talið hafa í för með sér mikla hagræðingu í rekstri minni sveitarfélaga og að þau verði betur í stakk búin til að sinna lögbundinni grunnþjónustu í kjölfarið.
Í greinargerð frumvarpsins er fjallað um hagræn áhrif fækkunar sveitarfélaga. „Samkvæmt greiningunni er áætlað að hagræn áhrif kunni að verða 3,6–5 milljarðar kr. vegna breyttra áherslna við rekstur sveitarfélaga. Þannig kann mögulegur sparnaður sem verður í rekstri stjórnsýslu sveitarfélaga að verða nýttur til að auka þjónustustig við íbúa sveitarfélaga,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
„Við höfum nú náð samstöðu um að stefnt skuli að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði 1.000 manns. Það er nú í höndum sveitarfélaga hvernig þau geti best náð því markmiði og hafi styrk til að sinna lögbundinni grunnþjónustu. Sveitarfélög hafa sýnt frumkvæði og víða um land er sameiningum ýmist lokið eða þær verið samþykktar. Annars staðar eru viðræður í gangi,“ er haft eftir Sigurði Inga í tilkynningunni.
Gengið mun skemur en til stóð
Fyrsta grein nýsamþykkts lagabreytingafrumvarps fjallar um lágmarksíbúafjölda. Þar segir að stefnt skuli að því að íbúafjöldi sveitarfélaga verði ekki undir 1.000. Sé íbúafjöldinn undir þeim viðmiðum við almennar sveitarstjórnarkosningar skal sveitarstjórn þess, innan árs frá kosningum, leitast við að ná markmiðum um lágmarksíbúafjölda með því að hefja formlegar sameiningarviðræður á grundvelli 119. greinar sveitarstjórnarlaga, sem fjallar um sameiningar, eða að vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum og um þau tækifæri sem felast í mögulegum kostum sameiningar sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög.
Sé slíkt álit unnið skal það svo sent samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og það kynnt íbúum. Sveitarstjórn tekur svo endanlega ákvörðun um það hvort hefja eigi samningaviðræður um sameiningu. Ákveði sveitarstjórn að gera það ekki geta tíu prósent þeirra sem eiga kosningarétt í sveitarfélaginu óskað eftir almennri atkvæðagreiðslu og skal niðurstaða hennar vera bindandi.
Til stóð að ganga mun lengra til að ná fram markmiði um lágmarksíbúafjölda. Þegar frumvarp Sigurðar Inga var lagt fram var lagt til að ráðherra ætti að hafa frumkvæði að því að sameina sveitarfélög. „Nú hefur íbúafjöldi sveitarfélags verið lægri en sem greinir í 1. mgr. [1.000 íbúar] í þrjú ár samfleytt og skal þá ráðherra eiga frumkvæði að því að sameina það öðru eða öðrum nærliggjandi sveitarfélögum,“ segir í upphaflegri mynd frumvarpsins. Í þessari mynd frumvarpsins var ráðherra heimilt að veita sveitarfélögum fjögurra ára undanþágu frá þessari reglu að fenginni umsögn ráðgjafarnefndar.
Í takt við tillögu starfshóps minni sveitarfélaga
Fjöldi smærri sveitarfélaga sendi inn umsagnir við frumvarpið þar sem lögfesting 1.000 íbúa lágmarks var mótmælt. Var fyrirhuguð breyting meðal annars kölluð lögþvingun og breytingin sögð stangast á við sjálfsákvörðunarrétti íbúa smærri sveitarfélaga.
Vel á annan tug smærri sveitarfélaga greindi frá stuðningi við tillögu starfshóps minni sveitarfélaga í sínum umsögnum. Endanleg niðurstaða um markmið um lágmarksíbúafjölda er nokkuð svipuð tillögu starfshópsins, með nokkrum breytingum þó. Til að mynda er gert ráð fyrir að sveitarstjórn skuli ræða sameiningu innan við sex mánuðum eftir sveitarstjórnarkosningar í stað árs og að 15 prósent kjósenda geti knúið fram kosningu um sameiningu í stað tíu prósenta í tillögum starfshópsins.
Í greinargerð sem fylgdi tillögunni segir að það sé ekki einungis tala íbúa sem ráði því hversu vel sveitarfélög geti sinnt lögbundinni þjónustu. „Burðir sveitarfélaga til þjónustu, möguleikar til eflingar og þróunar eru ekki bundnir við íbúafjölda nema öðrum þræði, en landfræðilegir þættir og lega t.d. m.t.t. samgangna og vegalengda, hefur þar einnig vægi svo og innviðir.“
Þar segir einnig að það ætti alltaf að vera í höndum sveitarfélaganna sjálfra og íbúa þeirra að ráða för þegar sameiningar sveitarfélaga eru annars vegar. „Sveitarfélög og íbúar þeirra ættu alltaf að hafa síðasta orðið um örlög sveitarfélaga og möguleika til sameiningar, það verður öllum til heilla. Enda í bestu samræmi við gildandi lög, Evrópuráðssamning um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og stjórnarskrá landsins.“
Varðandi lágmarksíbúafjölda var umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sambærileg þeirri frá starfshópi minni sveitarfélaga. Í umsögninni var lagt til að stefnt yrði að því að lágmarksíbúafjöldi hvers sveitarfélags yrði 1.000 án þess að beinlínis lögfesta lágmarkið. Í umsögninni var orðalag tillögunnar sagt „vísa betur til markmiða þingsályktunar um stefnu í málefnum sveitarfélaga um að ekkert sveitarfélag hafi færri en 1.000 íbúa heldur en orðalag í vinnuskjali.“