Samtök atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar vilja að tekjutap fyrirtækja, sem bæta á með viðspyrnustyrkjum, verði tengt við þróun vísitölu neysluverðs, eða þá að skilyrði fyrir veitingu styrkjanna verði rýmkuð.
Þetta kemur fram í sameiginlegri umsögn hagsmunasamtakanna tveggja um frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til breytinga á lögum um viðspyrnustyrki, sem felur í sér að styrkirnir verði framlengdir út marsmánuð.
Styrkirnir eru veittir fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir ákveðið miklu tekjufalli frá árinu 2019. Segja samtökin tvö í umsögn sinni að það sé mikilvægt að hafa í huga að almennt verðlag í landinu hafi hækkað um 11,5 prósent, sem þýði að viðmiðunarfjárhæðin þurfi að vera hærri sem því nemur til að halda verðgildi sínu frá janúar 2019 til desember 2021.
„Ef tekjur rekstraraðila í janúar 2019 voru 300 m.kr eru tekjur, leiðréttar fyrir verðbólgu, 335 m. kr. í desember 2021,“ segja samtökin í umsögn sinni og færa þannig rök fyrir því að nýta ætti seinni töluna til viðmiðunar.
Í lögunum um styrkina er kveðið á um að það þurfi að hafa orðið 40 prósenta tekjufall hjá fyrirtækjum frá samanburðarmánuði árið 2019 svo þau geti fengið viðspyrnustyrk.
Samtökin tvö segja að „eðlilegt“ sé að taka tillit til þess að verðlag er orðið hærra við þessa útreikninga og leggja því til að útreikningur á tekjufalli veitingastaðar skuli taka mið af verðhækkunum, eða þá að tekjufallsviðmiðið verði lækkað í 30 prósent til að koma til móts við verðlagsbreytingar.
Vilja að styrkir haldi áfram út apríl þrátt fyrir að full aflétting eigi sér stað
Fram hefur komið á undanförnum dögum að stefnt sé að því af hálfu stjórnvalda að leggja allar sóttvarnaráðstafanir í samfélaginu á hilluna, mögulega fyrir enda febrúarmánaðar. Þrátt fyrir að svo sé leggja SA og SAF til að viðspyrnustyrkjunum verði viðhaldið út aprílmánuð, enda sé það lægsti tekjumánuður ferðaþjónustufyrirtækja.
Einnig segir í umsögn samtakanna að ef frumvarpið eigi að ná markmiðum sínum um að brúa bilið fram til þess að ferðavilji glæðist þá sé nauðsynlegt að tímabilið sé lengt um einn mánuð. „Þó sóttvarnaraðgerðir séu mögulega aflagðar í mars 2022 þá tekur það alltaf tíma fyrir ferðaþjónustuna að taka við sér. A.m.k. mánaðaraðlögun er því nauðsynleg,“ segir í umsögninni.
ASÍ vill sem fyrr að arðgreiðslur verði takmarkaðar
Alþýðusamband Íslands hefur einnig skilað inn umsögn um þetta sama frumvarp. Þar er ítrekuð sú afstaða ASÍ, sem fram hefur komið í mörgum umsögnum um frumvörp sem lúta að styrkjum til fyrirtækja vegna áhrifa heimsfaraldursins, að „takmarka þurfi arðgreiðslur til eigenda hjá fyrirtækjum sem fara fram á stuðning frá stjórnvöldum“.
Í umsögn ASÍ segir að eðlilegt væri að krafa væri gerð um að fyrirtæki sem þiggi styrki geti ekki úthlutað arði í þrjú ár eftir styrkveitingu og lagt er til að sambærilegt ákvæði því sem rataði inn í lög um hlutabætur verði sett á.
Það er eina úrræði stjórnvalda vegna faraldursins þar sem kveðið hefur verið á um að fyrirtæki greiði ekki út arð í einhvern tíma eftir að hafa nýtt úrræðið.
Alþýðusambandið segir einnig í umsögn sinni að gera ætti breytingar á skilgreiningu tekna í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra og þá með þeim hætti að tekjur á borð við fjármagnstekjur og leigutekjur séu ekki reiknaðar með þeim tekjum sem koma til viðmiðunar.
„Eðlilegt væri að undanskilja fjármagnstekjur, t.d. arð, leigutekjur og vexti, í ljósi þess að áhrif heimsfaraldurs koma fyrst og fremst fram í beinum áhrifum á sölu á vörum og þjónustu,“ segir í umsögn ASÍ.