„Auðvitað á vísitalan að mæla húsnæðisverð, en hún á þá að gera það rétt, og hún gerir það ekki í dag,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, í útvarpsviðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Samkvæmt Sigurði styðst Hagstofan við ranga aðferð við að mæla húsnæðiskostnað í svokölluðum húsnæðislið í vísitölu neysluverðs. Með reikniaðferðinni hafa sveiflur í fasteignaverði áhrif á verðbólgu, en Sigurður segir þessa tengingu hafa magnað upp verðsveiflur hérlendis.
Áður fyrr hefur Sigurður Ingi sagt að miki áhrif húsnæðisliðarins á verðbólgu þessa stundina gæfu tilefni til að íhuga hvort fjarlægja ætti hann í heild sinni úr vísitölunni.
Magnar ekki, heldur jafnar
Líkt og Kjarninn hefur áður bent á er staðhæfing Sigurðar Inga um að húsnæðisliðurinn magni upp verðbólguna hérlendis þó röng. Samkvæmt tölum Hagstofu er þessu öfugt farið, vísitala neysluverðs án húsnæðisliðarins hefur sveiflast meira en venjulega vísitalan.
Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri benti einnig á þessa staðreynd í frétt Vísis sem birtist fyrr í dag, en þar sagði hann húsnæðisliðinn hafi jafnað sveiflur í vísitölunni. Þegar gengið hafi fallið og vöruverð hækkað hafi húsnæðisverð lækkað.
Í samræmi við alþjóðlega staðla
Hagstofan gaf svo frá sér tilkynningu eftir hádegi í dag þar sem farið var yfir tilvist húsnæðisliðarins í vísitölu og reikniaðferðirnar á honum.
Þar bendir stofnunin á að starfshópur hafi verið skipaður í tenslum við gerð lífskjarasamningana til að meta þá aðferðarfræði sem Hagstofa notaði við útreikning á vísitölu neysluverðs. Samkvæmt niðurstöðu hópsins er aðferð stofnunarinnar í fullu samræmi við alþjóðlegar aðferðafræðilýsingar.
Þó bætir Hagstofa við að fyrirkomulag verðtryggingar sé ákveðið í lögum um vexti og verðtryggingu sem stjórnmálamenn taka ákvörðun um. „Hagstofa Íslands reiknar margar vísitölur og þar á meðal vísitölu neysluverðs, bæði með og án húsnæðis,“ segir stofnunin.„ Sé vilji til þess að breyta verðtryggingu fjárskuldbindinga er Alþingi í lófa lagið að breyta lögum um vexti og verðtryggingu óháð þeirri aðferðarfræði sem beitt er við að reikna vísitölu neysluverðs.“
Í útvarpsviðtali í morgun nefndi Sigurður Ingi skýrslu nefndar um endurskoðun á framtíð peningastefnu sem rök fyrir að húsnæðiskostnaður væri ekki rétt mældur hérlendis, þar sem hún minntist á að lönd studdust við mismunandi reikniaðferðir til að meta hann.
Nefndin sem Sigurður vitnar í segist þó ekki taka afstöðu til þess hvernig húsnæðisliðurinn er reiknaður í vísitölu Hagstofunnar og segir sjálfstæði Hagstofu vera mikilvægt. Enn fremur bætir hún við í skýrslu sinni að hægt sé að færa fræðileg rök fyrir núverandi mælingaraðferð stofnunarinnar.