Mannfjöldaspá Hagstofu gerir ráð fyrir fækkun íbúa á tímabilinu 2026-2030 þar sem búist er við að fleiri muni flytja frá landinu heldur en til þess. Ómar Harðarson, sérfræðingur hjá stofnuninni, segir að taka ætti þessum spám með fyrirvara, þær séu tilkomnar vegna þess að gera þurfi ráð fyrir að hluti erlendra ríkisborgara sem setjast hér að flytji út aftur í spálíkaninu. Þrátt fyrir það hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mannfjöldaspá Hagstofu til grundvallar í sinni spá á uppsafnaðri húsnæðisþörf.
Samkvæmt mannfjöldaspánni, sem kom út á mánudaginn, er gert ráð fyrir töluverðri fjölgun íbúa á næstu árum, sem drifin verður áfram af fjölgun aðfluttra umfram brottfluttra. Búist er við að fjölgunin nái hámarki á milli áranna 2025 og 2026, en þá er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 13 þúsund manns.
Á milli áranna 2026 og 2029 gerir spálíkan Hagstofu hins vegar við að íbúum fækki á milli ára, þar sem mun fleiri muni flytja frá landinu heldur en til þess. Eftir níu ár er svo búist við stöðugri fólksfjölgun, sem og búferlaflutningum til og frá landsins, út spátímabilið. Þróunina má sjá á mynd hér að neðan. Samkvæmt henni fara sveiflur í mannfjöldaþróun á næstu árum að miklu leyti eftir fólksflutningum, en búist er við að fjöldi fæddra umfram látinna muni haldast nokkuð stöðugur á sama tíma.
Í samtali við Kjarnann segir Ómar Harðarson, sérfræðingur hjá Hagstofu, að mannfjöldaspáin byggi á tveimur spám. Annars vegar er það skammtímaspá, sem byggir meðal annars á hagfræðilegum stærðum og mati á fólksflutningum á næstu árum vegna þeirra, og hins vegar langtímaspánni, sem byggir meira á áætlaðri þróun í aldurssamsetningu og frjósemi.
Ómar segir þróunina í líkaninu á tímabilinu 2026 til 2029 vera vegna þess að Hagstofan þurfi að taka tillit til þess að fjöldi erlendra ríkisborgara sem flytja hingað til lands á næstu árum flytji af landi brott innan nokkurra ára. Væri það ekki gert gæti langtímaspáin falið í sér ofmat á þróun mannfjölda til lengri tíma. Samkvæmt honum þyrfti því að taka þróunina á þessu tímabili með fyrirvara.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) gaf út greiningu um íbúðaþörf til ársins 2030 fyrr í ár, en þar er mannfjöldaspá Hagstofu höfð til grundvallar. Samkvæmt HMS er búist við að íbúðaþörf hér á landi nái hámarki árið 2025, en muni svo minnka á tímabilinu 2026-2030 vegna minni fólksfjölgunar.
Aðeins meira samhengi. Hér eru íbúðabyggingar síðustu ár og íbúðaþörfin skv. mannfjöldaspá til 2030 miðað við að það að fjöldi fullorðinna á hverja íbúð haldist fastur (þá er t.d. ekkert unnið á skorti eða tekið tillit til breytts búsetumynsturs)
— Konráð S. Guðjónsson (@konradgudjons) December 21, 2021
😬 https://t.co/RA78aahJ7M pic.twitter.com/fezODMqrrU
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, vakti athygli á þessu misræmi í væntri þróun aðfluttra umfram brottfluttra á þessum áratug og hvernig hún getur haft áhrif á íbúðaþörfina hérlendis í Twitter-færslu í dag. Samkvæmt henni þyrfti að byggja um 3-5.000 íbúðir á hverju ári til ársins 2026, á meðan nær engin þörf væri á nýjum íbúðum árin 2027-2030. Twitter-færsluna má sjá hér að ofan.
Athugasemd ritstjórnar: Í upphaflegu fyrirsögn fréttarinnar stóð að Hagstofa hefði litla trú á eigin mannfjöldaspá fyrir tímabilið 2026-2030. Sú fullyrðing er ekki rétt og hefur fyrirsögninni því verið breytt í samræmi við það.