Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á fundi vegna vaxtaákvörðunar í dag að hagtölur sem sýndu litla einkaneyslu, eins og lesa mátti um í hagtíðindum sem birtust 5. desember, væru „algjörlega á skjön“ við flesta mælikvarða sem notaðir væru til þess að meta veltu í hagkerfinu. Þannig hefði innflutningur stóraukist milli ára, um 15 prósent. „Ríki sem eykur innflutning um 15 prósent milli ára, er nær örugglega í vexti í neyslu,“ sagði Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri.
Eins og Kjarninn hefur greint frá undanfarna daga komu hagtölurnar sem Hagstofa Íslands greindi frá 5. desember mörgum á óvart. Þær sýndu 0,5 prósent hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins og 0,2 neikvæðan vöxt á þriðja ársfjórðungi. Ekki síst er það mun minni einkaneysla en flestir höfðu spáð fyrir um sem kom á óvart. Spá höfðu gert ráð fyrir 2,7 til 3,1 prósenta hagvexti á árinu. Seðlabankinn spáir um 2,9 prósent hagvexti, og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn 3,1 prósent.
Már Guðmundsson var áberandi á kynningarfundinum í morgun, í jólapeysu. Már hóf fundinn á því að minnast á þetta þar sem hann væri að leggja góðu málefni lið, baráttu Barnaheilla gegn einelti. Mynd: Birgir Þór.
Í yfirlýsingu Peningastefnunefnda, vegna ákvörðunar um 0,5 prósentustiga stýrivaxtalækkun í 5,25 prósent, er hamrað á því að upplýsingarnar séu verulega á skjön við það sem áður var talið. „Hagvöxtur á þessu ári, þar af einkum vöxtur einkaneyslu, stefnir í að verða minni en áður var spáð, ef marka má nýjustu þjóðhagsreikninga. Þær tölur eru hins vegar verulega á skjön við aðrar vísbendingar um þróun eftirspurnar, hvort heldur gögn um innflutning eða ýmsa mælikvarða á veltu. Batinn á vinnumarkaði heldur áfram, þótt eitthvað hafi hægt á vexti vinnuaflseftirspurnar. Áfram er útlit fyrir góðan vöxt innlendrar eftirspurnar og landsframleiðslu á næstu misserum.“
Már sagði enn fremur að um þessar mundir mældist lítils háttar verðhjöðnun, og að verðbólguhorfur fyrir næstu misseri væru nokkuð góðar með tilliti til verðbólgumarkmiðs upp á 2,5 prósent. Verðbólga mælist nú 1 prósent.