Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur skipað Höllu Hrund Logadóttur í embætti orkumálastjóra frá og með 19. júní 2021.
Fimmtán manns sóttu um starfið, sem auglýst var undir lok síðasta árs. Á meðal annarra umsækjenda voru Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Björn Óli Hauksson, fyrrverandi forstjóri Isavia og Jón Þór Sturluson fyrrverandi aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins. Tvær umsóknir voru dregnar til baka.
Ráðherra skipaði nefnd til að meta hæfni umsækjenda og skila greinargerð um þá. Í henni sátu Kristín Haraldsdóttir lektor og formaður nefndarinnar, Birgir Jónsson rekstrarhagfræðingur og Ingvi Már Pálsson skrifstofustjóri.
Hæfnisnefndin mat fimm umsækjendur hæfasta til þess að gegna embættinu. Ráðherra boðaði í framhaldi viðkomandi fimm umsækjendur til viðtals og var það mat ráðherra að Halla Hrund væri hæfust umsækjenda til að stýra Orkustofnun til næstu fimm ára.
Hún hefur setið í stjórn Orkusjóðs frá árinu 2015 og sama ár hóf hún störf sem stundakennari við Háskólann í Reykjavík þar sem hún kennir námskeið um stefnumótun á sviði orkumála með áherslu á loftslagsmál. Halla Hrund var framkvæmdastjóri Iceland School of Energy við Háskólann í Reykjavík frá árinu 2013 fram til ársins 2016. Árin 2011 til 2013 var Halla Hrund forstöðumaður Alþjóðaþróunar við Háskólann í Reykjavík.