80 prósent skipana á vegum ráðuneyta og stofnana þeirra í stjórnir, starfshópa, nefndir og ráð falla í skaut íbúa höfuðborgarsvæðisins. Hlutfallið er um 90 prósent hjá nokkrum ráðuneytum. Til samanburðar þá búa 64 prósent íbúa landsins á höfuðborgarsvæðinu. Því veljast hlutfallslega fleiri til setu í stjórnum, starfshópum nefndum og ráðum af höfuðborgarsvæðinu en af landsbyggðinni.
Í mars sendi Hilda Jana Gísladóttir, varaþingmaður Samfylkingar, fyrirspurn til allra ráðherra þar sem spurt var: „Hvernig skiptist búseta þeirra sem skipuð hafa verið í stjórnir, starfshópa, nefndir, ráð o.þ.h. á vegum ráðuneytisins og stofnana þess eftir sveitarfélögum?“ Þess ber að geta að greining Kjarnans á svörunum ná til átta svara af tólf. Níu ráðherrar hafa svarað fyrirspurninni en skilafrestur svara við skriflegum fyrirspurnum er 15 virkir dagar og þar af leiðandi liðinn. Þar að auki er svar heilbrigðisráðherra ekki aðgengilegt á vef Alþingis þrátt fyrir að þingskjali með svarinu hafi verið útbýtt 16. þessa mánaðar. Svarið fékkst ekki frá heilbrigðisráðuneytinu þegar eftir því var leitað.
Hlutfall höfuðborgarbúa fer hæst í 93 prósent
Þetta hlutfall er hæst í dómsmálaráðuneytinu. Samkvæmt svari Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra, eru 124 einstaklingar skipaðir í stjórnir, starfshópa, nefndir og ráð á vegum dómsmálaráðuneytisins og stofnana þess. Af þeim búa 115 á höfuðborgarsvæðinu eða 93 prósent. Nokkur ráðuneyti fylgja fast á hæla dómsmálaráðuneytisins þegar horft er til skipana með tilliti til búsetu.
Hlutfall höfuðborgarbúa er 90 prósent í skipunum á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis, og á vegum háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. Hlutfallið er rétt undir 90 prósentum hjá forsætisráðuneytinu sem og í skipunum á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.
…og lægst í 63 prósent
Landsbyggðin á hlutfallslega flesta fulltrúa í skipunum á vegum matvælaráðuneytisins. Samkvæmt svari Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, búa 114 af 307 þeirra sem skipað hefur verið í stjórnir, starfshópa, nefndir og ráð á vegum ráðuneytisins úti á landi. Hlutfall höfuðborgarbúa í skipunum á vegum ráðuneytisins er því 63 prósent. Það ráðuneyti sem kemst næst matvælaráðuneytinu í skipun landsbyggðarfólks er umhverfis- og loftslagsráðuneytið, þar er hlutfall skipaðra höfuðborgarbúa 68 prósent.
Í hópi þeirra sem sitja í stjórnum, starfshópum, nefndum og ráðum á vegum ráðuneyta og stofnanna þeirra er einnig fólk sem býr erlendis, að mjög litlum hluta þó. Matvælaráðherra hefur skipað einn einstakling sem býr í Noregi og það sama hefur forsætisráðherra gert. Forsætisráðherra hefur einnig skipað tvo einstaklinga sem búa í Danmörku og einn einstakling sem býr í Svíþjóð í stjórnir, starfshópa, nefndir og ráð.