Hallgrímur Thorsteinsson, fjölmiðlamaður til margra ára og umsjónarmaður þáttarins Vikuloka á RÚV, hefur verið ráðinn ritstjóri DV. Reynir Traustason hefur verið leystur undan starfsskyldum sem ritstjóri.
„Við ætlum okkur að efla og styrkja félagið. DV er fjölmiðill sem er mikilvægur fyrir íslenskt samfélag. Blaðið hefur lagt stund á rannsóknarblaðamennsku og er það ætlun nýrrar stjórnar að halda áfram á þeirri braut. Slík blaðamennska gerir miklar kröfur til þeirra sem hana stunda og um leið þarf að vera hafið yfir allan vafa að ritstjórnin sé sjálfstæð og öllum óháð,“ segir Þorsteinn Guðnason, stjórnarformaður útgáfufélagsins í tilkynningu vegna ráðningar Hallgríms.
Haft er eftir Hallgrími í fréttatilkynningu að hann hlakki til þess að hefja störf. „Mér er það kappsmál að DV skipi áfram sinn sterka sess sem framvörður íslenskrar fréttamennsku og haldi áfram að rjúfa þögnina þar sem aðrir vilja láta kyrrt liggja. Ég hlakka til að hefja störf með öflugum hópi fagfólks á þessum mikilvæga fréttamiðli.”