Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, segir að hún hefði „ekki átt að eiga í nokkrum samskiptum við“ Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á meðan á lekamálinu stóð. Hún viðurkennir það í bréfi sem hún sendi umboðsmanni Alþingis þann 8. janúar síðastliðinn.
Hún hefur rætt við Stefán og beðið hann afsökunar á samskiptum þeirra á milli og framgöngu sinni í þeim.
Hanna Birna segir að samskipti hennar hafi ekki samrýmst „nægilega“ hinni óskráðu hæfisreglu stjórnsýsluréttar, og hún viðurkennir nú lýsingu Stefáns á samskiptum þeirra á milli. „Mér er einnig ljóst að þessi samskipti voru ekki að öllu leyti réttmæt af mér gagnvart lögreglustjóranum.“
„Það voru mistök af minni hálfu að eiga samskipti við lögreglustjórann vegna rannsóknarinnar meðan hún stóð yfir. [...] Ég sé nú að samskipti okkar voru hvorki fyllilega samrýmanleg stöðu minni sem yfirstjórnanda lögreglumála né því að lögreglustjórinn var forstöðumaður þess embættis sem vann að rannsókninni,“ segir Hanna Birna í bréfinu.
Umboðsmaður Alþingis er nú á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og sagði þar að málið hefði breyst eftir þetta nýjasta bréf Hönnu Birnu.
Sagðist ekki hafa farið yfir strikið
Þetta er mikil breyting á afstöðu Hönnu Birnu til málsins. Eftir að DV birti fréttina um samskipti Hönnu Birnu við Stefán, þann 29. júlí sagði hún: „Ég hafna með öllu stóryrtum og ósönnum fullyrðingum DV vegna þessa máls. Likt og komið hefur fram í dag bæði hjá mér og lögreglustjóra á ég enga aðkomu að ákvörðun hans um að skipta um starfsvettvang og hef hvorki beitt hann þrýstingi eða haft óeðlileg afskipti af einstökum málum sem eru eða hafa verið til meðferðar hjá lögreglu. I því máli sem hér er til umræður hef ég og allir starfsmenn ráðuneytisins sýnt fullan samstarfsvilja við rannsókn málsins á öllum stigum enda hefur málið verið rannsakað ítarlega. Líkt og komið hefur fram liggur niðurstaða ekki enn fyrir og mun ég þangað til ekki tjá mig frekar um málið.“
Í Kastljósviðtali í ágúst síðastliðnum sagðist hún hvorki hafa reynt að hafa áhrif á rannsókn lögreglu á lekamálinu né hafi hún farið yfir strikið í samskiptum sínum við Stefán.
Hanna Birna sagði þá rangt að í bréfi umboðsmanns Alþingis hafi verið lýst afskiptum ráðherra og annarra af rannsókn lögreglu á lekamálinu. Þar hafi einungis verið lýst samskiptum hennar og lögreglustjóra sem væri nauðsynlegt að þau ættu vegna rannsóknarinnar.
„Ég skilgreini það algjörlega þannig að ég reyndi aldrei að hafa áhrif á rannsóknina. Enda hefur Stefán sagt það að rannsóknin hafi gengið eðlilega fyrir sig. Það hefur ríkissaksóknari líka sagt þegar hún ákveður að ákæra í málinu. Henni hefði verið í lófa lagið ef hún teldi rannsóknina ekki fullnægjandi að vísa henni aftur til lögreglunnar," sagði Hanna Birna í Kastljósi þá.
Þessi frétt er í vinnslu.