Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mun líkast til ekki taka aftur við málaflokk dómsmála í ríkisstjórninni, stuðningur við áframhaldandi setu hennar sem ráðherra er ekki eindreginn í þingflokki Sjálfstæðisflokks og staða lekamálsins veldur mörgum þingmönnum hans þungum áhyggjum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þar er haft eftir Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að Hanna Birna muni að öllum líkindum ekki snúa aftur í dómsmálaráðuneytið. Það hafi verið bráðabirgðaráðstöfun að færa málaflokkinn yfir til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og nú þurfi að setjast yfir það hvernig honum verði fyrirkomið út kjörtímabilið.
Fréttablaðið segir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi verið áhyggjufullir á þingflokksfundi í gær vegna þeirrar stöðu sem er komin upp vegna lekamálsins.Þar segir:„Þingflokkurinn kom saman á fundi þar sem játning Gísla Freys Valdórssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns Hönnu, og staða hennar í kjölfarið bar hæst. Eftir fundinn lýsti Bjarni yfir fullum stuðningi við Hönnu Birnu. Bjarni segir hana hafa fengið mikinn stuðning í þingflokknum og hafa stuðning hans óskoraðan til að halda áfram störfum sínum. Aðspurður hvort allir þingmenn flokksins hafi lýst yfir stuðningi við Hönnu svarar Bjarni: „Það voru þingmenn sem tóku ekki til máls á fundinum. Við getum orðað það þannig."[...]Aðspurður hvort allir þingmenn flokksins hafi lýst yfir stuðningi við Hönnu Birnu sagði Bjarni að það hefðu verið „þingmenn sem tóku ekki til máls. Við skulum orða það þannig.""
Í frétt Morgunblaðsins um lekamálið í dag er því einnig haldið fram að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi áhyggjur af málinu. Þar segir einnig að Bjarni Benediktsson styðji Hönnu Birnu og að hún njóti óskoraðs trausts hans. Innan þingflokksins sé „breiður stuðningur" stuðningur við að hún haldi störfum sínum áfram.