Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi innanríkisráðherra, fullyrti í viðtali við sjónvarpsmanninn Sindra Sindrason í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi, að sími hennar og tölva hafi verið skoðuð við rannsókn lekamálsins. Sú fullyrðing stenst hins vegar ekki skoðun, því hið rétta er að einungis símar og tölvur aðstoðarmanna hennar voru skoðaðar í rannsókn lögreglu.
Sindri spurði hvort það hefði verið viðeigandi fyrir ráðherra að hafa jafn mikil samskipti við Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, og raun ber vitni.
„Eftir á að hyggja, nei. Hins vegar var þetta algjörlega fordæmalaust. Það hefur ekki komið upp áður að lögregla, sem er undirstofnun ráðuneytis, þarf að rannsaka ráðuneyti. Ég var til rannsóknar og ég auðvitað fór í yfirheyrslur og svo framvegis þannig að þannig hafði ég auðvitað ákveðnar upplýsingar. Ég er líka ráðherra sem þarf að vera viss um það að aðrar upplýsingar sem ég hef, til dæmis í símanum mínum sem var skoðaður, tölvunni minni sem var skoðuð, og aðgangskortinu mínu sem var skoðað í ráðuneytinu og svo framvegis, ég varð að vera viss um að þær upplýsingar sem menn fengju snéru einungis að þessu máli. Þannig að þegar ég talaði við Stefán var það alltaf um svona almenn atriði er vörðuðu slíka rannsók,“ sagði Hanna Birna í viðtalinu í Íslandi í dag.
Hvorki sími né tölva rannsökuð af tillitsemi við ráðherra
Í skriflegu svari Helga Magnúsar Gunnarssonar, vararíkissaksóknara, við fyrirspurn DV í lok nóvember, kemur fram að símanotkun Hönnu Birnu hafi ekki ekki skoðuð við rannsókn lekamálsins. Þar sem „embætti ríkissaksóknara og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vildu ekki ganga of nærri stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fráfarandi innanríkisráðherra, við rannsókn málsins [...] Þetta var gert til þess að gæta meðalhófs,“ eins og segir í svari vararíkissaksóknara. Ákvörðun um að rannsaka ekki síma Hönnu Birnu var á forræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt heimildum Kjarnans gilti það sama um tölvu Hönnu Birnu, það er að hún var ekki tekin til rannsóknar í lekamálinu til að ganga ekki of nærri ráðherranum. Sömu heimildir Kjarnans herma að aðgangskort Hönnu Birnu hafi líklega verið rannsakað hins vegar, eins og annarra í innanríkisráðuneytinu.
Uppfært klukkan 22:58
Í samtali við Kjarnann vill Hanna Birna árétta að með orðunum „símanum mínum“ í umræddu sjónvarpsviðtali hafi hún átt við borðsímann sinn í innanríkisráðuneytinu, sem hafi verið skoðaður af lögreglu, og með orðunum „tölvunni minni“ hafi hún átt við að tölvupóstur hennar á póstþjóni ráðuneytisins hafi verið skoðaður.