Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að hún ætlaði sér að sækjast eftir áframhaldandi setu í stóli varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
Hún sagði að vissulega væri staða hennar í stjórnmálum breytt, en sagðist hafa átt góðri lukku að stýra í kosningum innan Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagði í sömu frétt Stöðvar 2 að hann hefði átt gott samstarf við Hönnu Birnu í störfum fyrir flokkinn.
Hanna Birna sagði af sér sem innanríkisráðherra 21. nóvember í fyrra, eftir að hafa verið staðin að því að hafa afskipti af rannsókn lögreglu á lekamálinu svokallaða, en í því var aðstoðarmaður hennar fyrrverandi, Gísli Freyr Valdórsson, dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Hanna Birna sagði af sér, eftir að Gísli Freyr játaði að hafa lekið gögnum en Umboðsmaður Alþingis hafði þá þegar birt upplýsingar sem sýndu glögglega að Hanna Birna hafði sem innanríkisráðherra afskipti af rannsókn á hennar eigin ráðuneyti með samtölum við Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.
Hún hefur sjálft viðurkennt að hafa gert mistök og að hún hefði átt að segja af sér fyrr.