Umboðsmaður Alþingis hefur enn hvorki fengið gögn né upplýsingar um þá lögfræðilegu ráðgjöf sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, kvaðst sjálf hafa fengið innan ráðuneytisins um hvernig haga skyldi samskiptum við lögregluna á meðan rannsókn lekamálsins stóð yfir. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns varðandi frumkvæðisathugun hans á samskiptum Hönnu Birnu og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, við rannsókn lekamálsins.
Í álitinu segir: „Í bréfum innanríkisráðherra til mín hefur ráðherra vísað til lögfræðilegrar ráðgjafar sem ráðherra hafi fengið innan sem utan ráðuneytisins um samskipti sín við lögreglustjórann í tengslum við umrædda rannsókn. Ég tek fram strax í upphafi að það leiðir af lögum um umboðsmann Alþingis að eftirlit umboðsmanns lýtur aðeins að þeirri ráðgjöf sem ráðherrar fá innan stjórnsýslunnar. Í bréfum mínum og á fundum með innanríkisráðherra hef ég óskað eftir upplýsingum frá ráðherra um þessa lögfræðilegu ráðgjöf sem hann kveðst hafi fengið í innanríkisráðuneytinu. Ég hef þar haft í huga annars vegar að á ráðherra hvílir lögum samkvæmt skylda til að leita ráðgjafar og hins vegar að það heyrir undir eftirlit umboðsmanns að ráðgjöf opinberra starfsmanna til ráðherra sé rétt og í samræmi við lög.“
Eins og kunnugt er hefur Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, upplýst að hann hafi veitt Hönnu Birnu lögfræðilega ráðgjöf vegna lekamálsins. Jón Steinar staðfesti þetta með yfirlýsingu í lok ágúst.
Sá ekki ástæðu til að svara spurningu umboðsmanns
Umboðsmaður óskaði sérstaklega eftir nánari skýringum á lögfræðilegu ráðgjöfinni með bréfi 25. ágúst síðastliðinn, sem og hvaða starfsmenn ráðuneytisins hefðu veitt hana. Í svari ráðherra við fyrispurninni sá hún ekki ástæðu til að nefna nöfn þeirra sem veittu henni lögfræðilega ráðgjöf, „...enda er ábyrgðin mín sem ráðherra.“
Í ljósi skýringa Hönnu Birnu bað umboðsmaður Ragnhildur Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins um að gera grein fyrir lögfræðilegri ráðgjöf sem ráðherra hefði fengið vegna málsins. Ragnhildur sagðist ekki geta svarað því, en tók fram að hún hefði rætt við ráðherra við upphaf málsins áður en ríkissaksóknari sendi það til lögreglunnar. „Ráðuneytisstjórinn kveðst hins vegar ekki hafa vitneskju um hverjir innan ráðuneytisins hefðu veitt lögfræðilega ráðgjöf ef ráðgjöfin hafi lotið að því að samskipti, eins og þeim væri lýst í bréfi mínu til ráðherra 25. ágúst 2014, væru heimil. Ráðuneytisstjórinn segist ekki hafa vitað af því að samskipti ráðherra og lögreglustjórans hefðu verið með þeim hætti sem haft var eftir lögreglustjóranum í bréfi mínu. Það hefði fyrst verið þegar bréf mitt barst ráðuneytinu.“
Óskaði ítrekað eftir upplýsingum á fundi með ráðherra
Þá segir í áliti umboðsmanns að hann hafi ítrekað óskað eftir upplýsingum um hverjir hafi veitt unnanríkisráðherra þá ráðgjöf sem hún vísaði til á fundi með Hönnu Birnu þann 3. desember síðastliðinn. „Ráðherra ítrekaði þau sjónarmið sem fram höfðu komið í bréfum til mín og kvaðst „enga nákvæma ráðgjöf [hafa fengið] um það með hvaða hætti nákvæmlega þau samskipti skyldu vera.“ Ráðherra minnti líka á að á þessum tíma hefði hún litið svo á að lögreglustjórinn færi ekki með stjórn rannsóknarinnar og samskiptin hefðu því farið fram í því ljósi. Um vitneskju ráðuneytisstjórans um samskiptin sagði ráðherra að ráðuneytisstjórinn hefði vitað að hann ræddi við lögreglustjórann en þar sem þetta hefði verið tveggja manna tal hefði henni örugglega ekki verið kunnugt um hvernig þau samskipti voru.
Ég hef ekki fengið frekari gögn eða upplýsingar um þá lögfræðilegu ráðgjöf sem ráðherra kveðst hafa fengið innan ráðuneytisins um hvernig haga bæri samskiptum við lögregluna meðan rannsókn málsins stóð yfir.“