Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hafnar með öllu því sem hún kallar „stóryrtum og ósönnum fullyrðingum DV“ vegna lekamálsins svokallaða. Hún segist hvorki hafa beitt Stefán Eiríksson, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, þrýstingi eða haft óeðlileg afskipti af einstökum málum sem eru eða hafa verið til meðferðar hjá lögreglu. Hún kaus hins vegar að svara ekki beint spurningum Kjarnans um hvort ráðherra hafi átt samtöl við Stefán Eiríksson vegna málsins.
DV hélt því fram á forsíðu í morgun að Stefán hafi ákveðið að hætta störfum sem lögreglustjóri sem afskipta Hönnu Birnu af rannsókn á lekamálinu svokallaða, en Stefán réð sig nýverið sem sviðstjóra hjá Reykjavíkurborg. Hægt er að lesa frétt DV hér.
Svaraði fyrirspurn ekki beint
Kjarninn sendi eftirfarandi spurningar vegna málsins á Hönnu Birnu fyrr í dag:
Hefur þú átt samtöl við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, um lekamálið svokallaða?
Ef já, lýstir þú yfir óánægju með rannsókn embættisins á lekamálinu svokallaða?
Ef já, hvenær áttu þessi samtöl sér stað?
Í svari sem barst frá Þóreyju Vilhjálmsdóttur, aðstoðarmanni Hönnu Birnu, var spurningunum ekki svarað beint. Þess í stað voru send ummæli sem má hafa eftir Hönnu Birnu. Þau eru eftirfarandi:
„Ég hafna með öllu stóryrtum og ósönnum fullyrðingum DV vegna þessa máls. Likt og komið hefur fram í dag bæði hjá mér og lögreglustjóra á ég enga aðkomu að ákvörðun hans um að skipta um starfsvettvang og hef hvorki beitt hann þrýstingi eða haft óeðlileg afskipti af einstökum málum sem eru eða hafa verið til meðferðar hjá lögreglu. I því máli sem hér er til umræður hef ég og allir starfsmenn ráðuneytisins sýnt fullan samstarfsvilja við rannsókn málsins á öllum stigum enda hefur málið verið rannsakað ítarlega. Líkt og komið hefur fram liggur niðurstaða ekki enn fyrir og mun ég þangað til ekki tjá mig frekar um málið.“