Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum innanríkisráðherra, segist ekki hafa haft áhrif á rannsókn lögreglu á lekamálinu né hafi hún viðurkennt að hafa reynt það. Þetta kemur fram í athugasemd við frétt í kvöldfréttum RÚV í gær.
Athugasemdin er það eina sem heyrst hefur opinberlega frá Hönnu Birnu síðan að álit umboðsmanns Alþingis, á samskiptum hennar við fyrrum lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins á meðan að á rannsókn lekamálsins stóð, var birt á föstudag.
Í gærkvöldi var athugasemd bætt við netútgáfu fréttarinnar. Í henni segir "Hanna Birna Kristjánsdóttir gerir athugasemdir við þá fullyrðingu í þessari frétt að hún hafi viðurkennt að hafa reynt að hafa áhrif á rannsókn lögreglu á lekamálinu. Það hafi hún hvorki gert né viðurkennt."
Fór langt út fyrir valdsvið sitt
Umboðsmaður Alþingis birti á föstudag niðurstöðu frumkvæðisathugunar sinnar á samskiptum Hönnu Birnu og Stefáns Eiríksson, fyrrum lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, vegna rannsóknar lekamálsins svokallaða. Þar sagði meðal annars að að ráðherra hafi farið langt út fyrir valdsvið sitt í samskiptunum. Málið er nú á borði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Umboðsmaður segir að afstaða Hönnu Birnu til athugunar hans hafi breyst eftir að hún sagði af sér sem innanríkisráðherra í lok nóvember 2014. „Eftir það hefur hann [ráðherrann fyrrverandi] lýst því í bréfi til mín 8. janúar 2015 að það hafi verið mistök af hans hálfu að eiga samskipti við lögreglustjórann vegna lögreglurannsóknarinnar meðan hún stóð yfir. Í sama bréfi kemur einnig fram breytt afstaða til þess hvert hafi verið efni samskiptanna við lögreglustjórann og til lagareglna sem reynir á í málinu frá því sem komið hafði fram í fyrri svörum ráðherra og skýringum.“
Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu, var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi í nóvember 2014 fyrir að leka minnisblaði um hælisleitandann Tony Omos til mbl.is og Fréttablaðsins í nóvember 2013. Gísli Freyr játaði brotið daginn áður en mál hans fór fyrir dóm.