Umboðsmaður Alþingis sendi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, fyrsta bréfið vegna lekamálsins svokallaða þann 30. júlí síðastliðinn. Þar óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum frá ráðherra, svo hann gæti tekið afstöðu til þess hvort hann tæki málið til formlegrar athugunar. Tildrög bréfsins má rekja til fréttar DV sem birtist daginn áður, þar sem fullyrt var að Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefði ákveðið að láta af störfum vegna afskipta Hönnu Birnu af lögreglurannsókn lekamálsins.
Í bréfi umboðsmanns til ráðherra kemur jafnframt fram að hann hafi átt samtöl við Stefán Eiríksson og Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, sem einnig liggi til grundvallar fyrirspurn hans til ráðherra.
Hringdi rakleiðis í Stefán og krafðist upplýsinga
Í áliti umboðsmanns, vegna frumkvæðisathugunar hans á samskiptum Hönnu Birnu og Stefáns vegna lögreglurannsóknar á lekamálinu, kemur fram að ráðherra hafi hringt í lögreglustjórann í kjölfar bréfsins og spurt hvort hann hafi haft samband við umboðsmann Alþingis.
Í álitinu segir: „Lögreglustjórinn tjáði mér að ráðherra hefði ekki verð sáttur við að hann hefði greint umboðsmanni frá samskiptum þeirra og spurt hvort hann hefði „virkilega talað við umboðsmann.“ [...] Þá hefur lögreglustjórinn greint mér frá því að þegar ráðherra var að undirbúa svarbréf til mín, sem síðar varð bréf, dags. 1. ágúst 2014, hafi lögmaður sem starfaði fyrir ráðherra hringt í hann og borið undir hann efnisatriði í bréfinu og spurt hvort hann gerði athugasemdir við það. Til svara lögreglustjórans við spurningu lögmannsins var ekki vitnað í svarbréfi ráðherra til mín en það kom síðar fram í opinberri umræðu að tiltekin orð úr þeim svörum áttu að vera til staðfestingar á réttmæti orða ráðherra um málið. Lögreglustjórinn tók fram í lýsingu sinni á samtalinu við lögmanninn að hann hefði hins vegar sagt fleira en það hefði ekki fylgt með þegar aðrir greindu frá samtalinu.“
Umboðsmaður minnir á að lögreglustjóri hafi gefið greinargóða lýsingu á samskiptum sínum við innanríkisráðherra að beiðni umboðsmanns vegna lögbundins eftirlits hans með stjórnsýslunni. „Ég tel að það geti hvorki samrýmst þeim sjónarmiðum sem lýst var í upphafi þessa kafla né þeim lagareglum sem eftirlit umboðsmanns Alþingis byggist á að ráðherra eða lögmaður á hans vegum hafi beint samband við þann opinbera starfsmann sem veitt hefur umboðsmanni upplýsingar og krefji hann skýringa á því sem hann hefur greint umboðsmanni frá. Eftir að umboðsmaður hefur tekið málið til skoðunar, eins og í þessu máli, eiga samskipti vegna þess að fara fram milli umboðsmanns og stjórnvaldsins, í þessu tilviki innanríkisráðherra.“