Haraldur Ingi Haraldsson, verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ, skipar efsta sæti á lista Sósíalistaflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi kosningar og Margrét Pétursdóttir verkakona er í öðru sæti listans, samkvæmt tilkynningu hjá flokknum sem á nú einungis eftir að kynna lista sinn í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi kosningar.
Í tilkynningu Sósíalistaflokksins segir að oddvitinn Haraldur Ingi hafi víðtæka reynslu af atvinnulífinu og hafi starfað sem kennari, leiðsögumaður, við kræklingarækt, við safnastörf og fleira. Hann hefur tekið virkan þátt í félagsstarfi flokksins og situr í framkvæmdastjórn hans.
„Haraldur Ingi hefur lagt stund á listir og sífellt sjálfsnám um vinstri sinnuð stjórnmál, sagnfræði og hagfræði. Niðurstaða þess náms fyrir honum er að félagslegt og efnahagslegt óréttlæti fer hraðvaxandi og ástæða þess er samfélagskerfi sem leggur fyrst og fremst áherslu á skyndigróða með sem minnstum tilkostnaði og sem minnsta ábyrgð og veitir ávinningnum að mestu leiti til eigenda stórfyrirtækja, hluthafa og stjórnenda og fjármagnseigenda,“ segir um oddvitann í tilkynningu flokksins.
Haft er eftir Haraldi að það sé „kominn tími á róttæka vinstristefnu sem hefur skýra framtíðarsýn og hafnar stöðugum málamiðlunum til hægri“ og að málamiðlanir hafi „engu skilað nema afturför, síauknum ójöfnuði og auðsöfnun lítils hluta þjóðarinnar.“
„Skattahækkanir á bótaþega og almennt launafólk, sligandi húsnæðis- og leigumarkaður og níðþungur fjármagnskostnaður og fjármálakerfi leggja þungar byrðar á þjóðina en soga hins vegar gríðarlegan arð til fjármagnseigenda og stórfyrirtækja,“ er haft eftir Haraldi Inga.
Listanum í Norðausturkjördæmi var stillt upp af slembivöldum hópi félaga flokksins, sem áttu samkvæmt tilkynningu flokksins að „endurspegla sem skýrast vilja grasrótar flokksins“.
Listi Sósíalistaflokks Íslands í Norðausturkjördæmi:
- Haraldur Ingi Haraldsson, verkefnisstjóri
- Margrét Pétursdóttir, verkakona
- Guðrún Þórsdóttir, menningarstjóri og ráðgjafi
- Þorsteinn Bergsson, bóndi
- Unnur María Máney Bergsveinsdóttir, sirkuslistakona og sagnfræðingur
- Auður Traustadóttir, sjúkraliði
- Rúnar Freyr Júlíusson, námsmaður
- Karolina Sigurðardóttir, verkakona
- Bergrún Andradóttir, námsmaður
- Brynja Siguróladóttir, öryrki
- Stefán L. Rögnvaldsson, bóndi og raunsæisskáld
- Kolbeinn Agnarsson, sjómaður
- Halldóra Hafdísardóttir, myndlistarmaður
- Arinbjörn Árnason, fv. bóndi og bifreiðarstjóri
- Ari Sigurjónsson, sjómaður
- Árni Daníel Júlíusson, sagnfræðingur
- Michal Polacek, lögfræðingur
- Katrín María Ipaz, þjónn
- Skúli Skúlason, leiðbeinandi.
- Jóhann Axelsson, prófessor emeritus