Í byrjun þessa mánaðar voru 229.686 einstaklingar skráðir í þjóðkirkjuna, samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands. Þar segir að þessi hópur sé 61,7 prósent íbúa landsins og þeir samkvæmt því rúmlega 372 þúsund talsins. Það þýðir að tæplega 143 þúsund íbúar standi utan þjóðkirkjunnar nú um stundir, og eru þá í öðrum trúfélögum eða standa alveg utan trúfélaga. Þeir hafa aldrei verið fleiri.
um síðustu aldamót stóðu alls tæplega 31 þúsund manns utan þjóðkirkjunnar. Þeim sem kjósa að gera það hefur því fjölgað um 112 þúsund á rúmum tuttugu árum. Til að setja þá tölu í samhengi þá eru það fleiri en búa samanlagt í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi sem stendur, en íbúar þessara fimm sveitarfélaga eru samtals tæplega 104 þúsund talsins.
Fækkað hratt
Þeim landsmönnum sem eru í þjóðkirkjunni hefur fækkað hratt á síðastliðnum árum. Í byrjun árs 2009 náði fjöldi þeirra mettölu, en þá voru 253.069 landsmenn í henni.
Á sama tíma, tæpum 13 árum, hefur íbúum landsins fjölgað um tæplega 53 þúsund. Því hafa 76.277 íbúðar landsins valið að ganga úr, eða skrá sig ekki í, þjóðkirkjuna frá byrjun árs 2009.
Fjórðungur segist eiga mikla samleið með kirkjunni
Í könnun sem Maskína gerði fyrir Siðmennt í byrjun árs í fyrra kom fram að rúmlega 54 prósent landsmanna væru fremur eða mjög hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju og 25,7 prósent þeirra segjast vera í meðallagi hlynnt honum. Rúmlega 20 prósent segjast vera fremur eða mjög andvíg aðskilnaði.
Í könnuninni var einnig spurt hvort að fólk teldi sig eiga samleið með þjóðkirkjunni. Alls sögðust 48,7 prósent að þeir ættu litla eða enga samleið með henni en 25,7 prósent sögðu að þeir ættu nokkra samleið. Alls sögðu 25,5 prósent aðspurðra að sú samleið væri fremur eða mjög mikil.
Könnunin fór fram daganna 16. til 22. janúar 2020. Svarendur voru alls staðar að á landinu, 18 ára og eldri. Alls svöruðu 954 könnuninni.