Heiða Kristín Helgadóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar og annar stofnenda flokksins, segir að hún treysti sér fullkomlega til þess að verða formaður hans. Ef það sé vilji fyrir því innan Bjartrar framtíðar þá sé hún tilbúin að bjóða sig fram til formanns. Það getur hún gert í september næstkomandi þegar ársfundur flokksins fer fram. Þetta kom fram í þættinum Vikulokunum á Rás 1 fyrr í dag. Þar gagnrýndi hún Guðmund Steingrímsson, formann flokksins sem stofnaði hann með henni á sínum tíma, einnig, sagði hann hafa fengið ágætis tækifæri til að sanna sig en að forysta hans væri augljóslega ekki að virka.
Í þættinum var Heiða Kristín meðal annars spurð út í ummæli sem hún lét falla í viðtali við Kjarnann á þriðjudag. Þar sagði hún að það þyrfti mikið að gerast hjá jartri framtíð, flokkinum sem hún tók þátt í að stofna, til að henni finnist ákjósanlegt að stíga inn á þann vettvang á ný. „Mér finnst vandi Bjartrar framtíðar vera inni í Bjartri framtíð, hann er ekki vandi kjósenda. Vandinn er ekki tilkominn vegna þess að kjósendur skilja ekki flokkinn heldur er hann vandi formannsins [Guðmundar Steingrímssonar] og þeirra sem starfa í Bjartri framtíð.“
Fylgi Bjartrar framtíðar hefur hríðfallið undanfarið. Í könnun sem MMR birti í vikunni sögðust einungis 4,4 prósent kjósenda ætla að kjósa flokkinn, sem er versta útkoma hans í mælingum MMR á þessum kjörtímabili. Miðað við það fylgi myndi Björt framtíð ekki ná inn manni í komandi kosningum.
Guðmundur Steingrímsson er formaður Bjartrar framtíðar og annar stofnanda flokksins. Hinn stofnandinn, Heiða Kristín Helgadóttir, gagrýndi hann harðlega í Vikulokunum í dag.
Segir flokkinn hafa formaliserast og mikið
Í Vikulokunum sagði Heiða Kristín að hún hefði verið búin að gera samstarfsfólki sínu í Bjartri framtíð grein fyrir því í aðdraganda þess að hún hætti sem stjórnarformaður flokksins í lok síðasta árs að hún væri óánægð með ákveðna hluti. Hún segist ekki hafa hætt í illdeilum eða á vondum nótum en fannst staðan innan flokksins vera þannig að hún fann ekki tengingu við það sem var að gerast og taldi sig ekki vera að koma sínum áherslum á framfærði. Því velti hún því fyrir sér hvort hún væri vandamálið frekar en aðrir í forystu Bjartrar framtíðar og ákvað í kjölfarið að stíga til hliðar.
Aðspurð hver vandi Bjartar framtíðar væri sagði Heiða Kristín: „Mér finnst vandinn fyrst og fremst vera sá að það er ákveðið tengingarleysi. Það er alltaf verið að bera á borð einhverjar tæknilegar lausnir við tilfinningalegum vandamálum. [...]Mér finnst flokkurinn hafa formaliserast of mikið fyrir mína parta og mér finnst hann vera að elta eitthvað form sem er fyrirfram gefið í pólitik. Og mér finnst það ekki vera eitthvað sem er mikil eftirspurn eftir.“
Hún sagði einnig að það færi í taugarnar á sér að Björt framtíð væri alltaf að skilgreina sig út frá öðrum. „Mér finnst Björt framtíð eiga að tala um sig og hvað það er sem hún er að koma fram með og hvernig hún sér heiminn. En ekki alltaf einhvern veginn hvernig Björt framtíð er öðruvísi en Samfylkingin.“
Myndi mögulega taka þingsæti ef Guðmundur hættir
Helgi Seljan, þáttarstjórnandi Vikulokanna, spurði Heiðu Kristínu síðan hvort hún myndi taka þingsæti Bjartar Ólafsdóttur, sem er á leið í fæðingarorlof, ef Guðmundur Steingrímsson hætti sem formaður Bjartrar framtíðar. Heiða Krístín er varaþingmaður Bjartar og sagði við Kjarnann á þriðjudag að hún myndi ekki taka sæti hennar að óbreyttu vegna óánægju með forystu flokksins.
Heiða Kristín sagði að hún myndi hugleiða það að taka sætið á öðrum nótum ef Guðmundur mundi stíga til hliðar. „Mér finnst hann hafa fengið ágætis tækifæri til að sanna sig og það er búið að leggja heilmikið inn í þennan flokk, bæði fylgi frá Besta flokknum og allskonar hluti[...] Maður verður að horfa í stöðuna. Þrjú til fjögur prósent [fylgi] og segja: ok, þetta er kannski ekki að virka og við þurfum að prófa eitthvað annað."
Að lokum var hún spurð hvort hún vildi verða formaður Bjartrar framtíðar og svaraði Heiða Kristín því til að hún treysti sér fullkomlega til þess ef vilji væri fyrir því að bjóða sig fram til formanns.