Indversk stjórnvöld hafa bannað sýningu á heimildarmyndinni India's Daughter, sem fjallar um nauðgun og morð á hinni 23 ára gömlu Jyoti Singh í Delhi í lok árs 2012. Þau ætla jafnframt að reyna að koma í veg fyrir að myndin verði sýnd annars staðar í heiminum, að sögn innanríkisráðherra Indlands, Rajnath Singh, sem talaði um málið í indverska þinginu. Hann segir að enginn fái að nýta sér atburðinn á nokkurn hátt.
Frumsýna á myndina á sunnudaginn, en sunnudaginn ber upp á 8. mars sem er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Myndin markar einnig upphaf víðtækrar herferðar gegn ofbeldi gegn konum. Sýna átti hana í Indlandi og sjö öðrum löndum á sunnudaginn, þar á meðal á BBC4 í Bretlandi. Búið er að fara þess á leit við BBC að myndin verði ekki sýnd, en við því verður ekki orðið að sögn talskonu BBC. Þá á að sýna myndina víðar næstu daga á eftir.
Aðgengi að nauðgara fordæmalaust
Innanríkisráðherrann Rajnath Singh segir jafnframt að hann muni láta rannsaka hvernig aðstandendur myndarinnar hafi fengið að fara inn í fangelsi og tala við fanga á dauðadeild, en í myndinni er rætt við einn nauðgaranna, Mukesh Singh. Hann sýnir ekki nokkra iðrun í viðtalinu heldur kennir fórnarlambinu um. Hún hafi ekki hagað sér eins og konu sæmi og að ef hún hefði ekki barist gegn nauðguninni hefði hún ekki verið myrt.
Breska kvikmyndagerðarkonan Leslee Udwin gerði myndina og hún ætlar að berjast gegn lögbanninu á myndina. Hún segir að bæði fangelsið og ráðuneytið hafi gefið leyfi fyrir viðtalinu og að hún hafi sýnt fangelsisyfirvöldum viðtölin eftir á. Aðgangur hennar að fangelsinu er næstum fordæmalaus, hún tók viðtal við nauðgarann í sextán klukkustundir yfir þriggja daga tímabil. Mannréttindasamtök fá sjaldnast aðgang að fangelsum landsins, hvað þá að mynda þar, og hefur þetta vakið athygli margra.
Lögregla fór fram á lögbann á myndina vegna ummæla Mukesh Singh í henni, sem lögregla segir að veki upp andrúmsloft ótta og spennu og að ummælin geti valdið háværum mótmælum og óeirðum.
Ekki hægt að horfa framhjá vandanum
Annar ráðherra, Venkaiah Naidu, segir að myndin sé í raun alþjóðlegt samsæri sem snúist um að rægja Indland og að ríkið myndi bíða skaða af því að myndin verði sýnd um heiminn.
Þingkonan Anu Agha segir hins vegar að bann við myndinni sé ekki svarið. „Við verðum að takast á við það vandamál að margir karlar í Indlandi bera ekki virðingu fyrir konum. Það sem nauðgarinn sagði er viðhorf margra karla í Indlandi. Af hverju erum við að forðast þetta? Verum meðvituð og látum ekki eins og allt sé í lagi,“ sagði hún í dag.
Talskona BBC hefur einnig tjáð sig um málið og sagt að þessi átakanlega mynd veiti innsýn inn í hræðilegan glæp, sem þó leiddi til umfangsmikilla mótmæla þar sem þess var krafist að viðhorf gagnvart konum breytist.
Udwin sjálf hefur talað á svipuðum nótum. Hún hefur sagt að Indverjar ættu í raun að fagna myndinni, nú sé komið tækifæri fyrir Indland til að halda áfram að sýna heiminum hversu mikið hefði breyst eftir þennan svívirðilega glæp. „Því miður mun bann myndarinnar einangra landið í augum heimsins. Það mun hafa þveröfug áhrif.“
BBC segir að margir taki undir þennan málflutning, það komi ekki vel út fyrir stjórnvöld að líta út fyrir að vera á móti tjáningarfrelsinu.